Fyrstu niður­stöður rann­sóknar banda­rískra sam­göngu­yfir­valda á vélar­biluninni á Boeing 777 vél í Den­ver fyrir helgi hafa leitt í ljós málm­þreytu [e. metal fa­tigu­e] í viftu­spöðunum í mótor fyrir­tækisins Pratt og Whit­n­ey sem notaður var í þær 777 vélar sem hafa verið kyrr­settar viða um heim.

Það kviknaði í vélinni stuttu eftir flug­tak í flugi United Air­lines frá Den­ver til Honolulu. 231 far­þegar voru um borð og tíu á­hafnar­með­limir. Flug­mennirnir sendu út neyðar­kall og sneru aftur til Den­ver.

Daginn eftir voru tugir slíkra véla kyrr­settar eftir að Boeing gaf út að Pratt og Whit­n­ey 4000 mótorarnir ættu að vera skoðaðir betur.

Það kviknaði í á hægri væng vélarinnar.
Fréttablaðið/EPA

Skoða málið betur

For­maður sam­göngu­öryggis­nefndar Banda­ríkjanna, Robert Sumwalt, sagði í gær að fyrstu niður­stöður rann­sóknar bendi til málm­þreytu í viftu­spöðunum og að þeir verði skoðaðir nánar í dag á rann­sóknar­stofu Pratt og Whit­n­ey í sam­starfi við starfs­menn yfir­valda.

Hann sagði að það væri ekki ljóst hvort að vélar­bilunin í þessu flugi væri á­líka og í flugi United Air­lines til Hawa­ii í febrúar árið 2018 en þá var bilunin rekin til brotins viftu­spaða. Hann sagði mikil­vægt að þau skilji að­stæður vel svo hægt sé að bera saman við önnur at­vik.

Þá er þriðja at­vikið einnig til skoðunar en það var í flugi Japan Air­lines í desember árið 2020. Í kjöl­far bilunar fundu japönsk yfir­völd tvo bilaða viftu­spaða og var annar þeirra með sprungu og málm­þreytu.

Málið verður á­fram til skoðunar hjá banda­rískum yfir­völdum.

Ótrúlegt myndskeið af brakinu að falla

Flug­vél United Air­lines þurfi, eins og fyrr segir, að snúa við stuttu eftir flug­tak. Bilunin kom upp á hægri væng vélarinnar og mátti finna brak úr vélinni víða í nær­­liggjandi í­búða­hverfi. Hér að neðan má sjá mynd­skeið úr öryggis­mynda­vél einnar í­búðarinnar sem náðist af því þegar brakið fellur til jarðar úr vélinni. Eins og má sjá munaði litlu að það félli beint á húsin.