Ferð borgar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins, Arnar Þórðar­sonar, og á­tján manna matar­klúbbs hans um Horn­strandir breyttist skyndi­lega í ó­vissu­ferð eftir margra mánaða skipu­lagningu. Í fyrra­dag bilaði mótor báts sem átti að flytja hópinn frá Bolungar­vík yfir í Horn­vík þaðan sem ganga átti í Hornbjargsvita en þangað liggja auðvitað engin vegir fyrir bíla.

Allir lögðust á eitt

Á meðan eig­andi bátsins vann dag og nótt að því að laga bátinn með hjálp Bol­víkinga sat hópurinn fastur en einnig annar göngu­hópur á vegum Ferða­fé­lags Ís­lands, sem þó var fastur hinum megin, í vitanum, og beið þar eftir að geta komist aftur heim.

„Þeir hafa verið að vinna í því hérna dag og nótt að segja nýjan mótor í bátinn og í raun voru þeir mjög heppnir að fá ein­mitt sams­konar mótor hérna af svæðinu,“ segir Örn þegar Frétta­blaðið náði tali af honum. „Það lagðist maður við mann hérna í Bolungar­vík og einn vél­virki hérna á átt­ræðis­aldri, kunn­áttu­maður með mikla reynslu, hjálpaði við að koma bátnum í stand.“

Það var rétt um þrjú­leytið í dag sem báturinn komst loks aftur í gang. Hann gat þó ekki flutt hóp Arnar strax því hópurinn, sem hafði setið fastur í vitanum hafði lagt af stað fót­gangandi úr Horn­vík yfir í Veiði­leysu­fjörð í morgun og varð að sækja hann þangað á bátnum um leið og hann komst í gang. Á­kveðið var þó að helmingur á­tján manna matar­klúbbsins færi með bátnum í Veiði­leysu­fjörð og færi sömu leið, fót­gangandi yfir í Horn­vík, en hinn helmingurinn færi með bátnum alla leiðina í annarri ferð í kvöld.

„Hann hentist með hluta af okkar hóp yfir í Veiði­leysu­fjörð sem á þá að labba yfir í vitann en ein­hverjir urðu eftir til að flytja vistir í bátinn og sigla með honum síðan yfir í Horn­vík. Við erum bara að bíða eftir því að hann komi til baka,“ segir Örn.

Það fer ekki allt eins og ætlað er. Sérstaklega ekki þegar farið er útfyrir alfaraleiðir. Ferðin í Hornbjargsvita fór...

Posted by Örn Þórðarson on Sunday, July 12, 2020

Vont að vera í reiðuleysi í Veiðileysufirði

„Þetta er orðin ó­vissu­ferð, sem var reyndar búið að plana í marga mánuði en bara breyttist síðan á ör­skots­stundu þegar vélin hrundi í bátnum,“ heldur hann á­fram. „Það varð bara að bjarga málunum og þeim hefur nú tekist það ó­trú­lega vel þessum aðilum. Auð­vitað er enginn á­nægður en það er akkúrat kannski sú lausn sem heppnast best; þegar allir eru svoldið spældir en það er leyst úr allra vanda.“

„Við auð­vitað höfum skilning á því að það þarf líka að bjarga fólki sem var á heim­leið og erum skilnings­rík á vanda þeirra sem lögðu af stað labbandi yfir í Veiði­leysu­fjörð. Því það væri vont ef þau væri í reiðu­leysi í Veiði­leysu­firði,“ segir Örn hlæjandi.

Hann reiknar með að sá helmingur hópsins sem enn er í Bolungar­vík fari af stað innan skamms. Hann mun þá sam­einast hinum sem fóru fót­gangandi í kvöld í vitanum – ef ekkert frekar kemur upp á. Í vitanum ætlar hópurinn svo að dveljast í nokkra daga þangað til báturinn sækir hann aftur.