„Það er allt á á­ætlun. Vélin fór frá Akur­eyri klukkan 7.42 og kemur aftur Akur­eyrar í dag,“ segir Þor­valdur Lúð­vík Sigur­jóns­son, fram­kvæmdar­stjóri Niceair.

Frétta­blaðið greindi frá því á laugar­dag að flug­­vél á vegum Niceair hafi flogið tóm frá Lundúnum til Kefla­víkur fyrir helgi, eftir að í ljós kom skömmu eftir flug­tak frá Akur­eyri að heimild til á­ætlunar­flugs til Bret­lands lægi ekki fyrir.

Lokað var í kjöl­farið fyrir sölu Niceair á flugi til Lundúna, og sagði Þor­valdur var­kárni á­stæðuna fyrir því.

Enn unnið að varanlegri lausn

Fyrir lá að næsta flug Niceair til London var í morgun og því hefur verið unnið að því yfir helgina að leysa þennan vanda. Að sögn Þor­valdar hefur verið tryggt að vélin sem nú er á leið til London fái að lenda og taka far­þega. Enn sé hins vegar unnið að varan­legri lausn.

„Vitað er hvar vandinn liggur og unnið sam­kvæmt því. Þetta ætti vonandi að vera klárt á næstu dögum,“ segir Þor­valdur og bætir við að frí undan­farna daga vegna há­tíða bæði í Bret­landi og á Ís­landi hafi ekki hjálpað til.

Áætlaður lendingartími vélarinnar í London er klukkan 11.15.
Skjáskot af Flighttracker

Far­þegarnir sem áttu að fljúga með vél Niceair til Akur­eyrar fyrir helgi fengu sæti í vél Icelandair til Kefla­víkur og voru far­miðarnir greiddir af Niceair að sögn Þor­valdar. Niceair bauð svo far­þegunum flug milli Kefla­víkur og Akur­eyrar.

„Við komum okkar far­þegum á leiðar­enda. Við náttúru­­lega flugum bara sjálf til Kefla­víkur og biðum eftir far­þegunum.“