Flugvél Icelandair var snúið við í miðju flugi frá Reykjavík til Akureyrar vegna tæknibilunar.

Vélin lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 7:19 í morgun og átti að lenda á Akureyrarflugvelli rétt fyrir klukkan átta. Vélin komst þó aldrei á áfangastað en var snúið við yfir Langjökli og lent í Reykjavík.

„Það kom upp tæknilegt atriði og samkvæmt verklagi var vélinni snúið við,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Fréttablaðið. Hún segir enga hættu hafa verið á ferð og að tæknibilunin hafi verið minni háttar.

„Það var auðveldara að leysa vandamálið í Reykjavík,“ segir Ásdís.

Flugfélagið setti upp aukaflug og farþegar fengu að komast í önnur flug. Verið er að aðstoða þá farþega sem komust ekki leiðar sinnar.

Flugvélin sem um ræðir er af gerðinni Dash-8 sem er 76 sæta skrúfuþota.