Það eru um tuttugu sæti eftir í flugi Icelandair til Íslands frá Alicante sem ákveðið var að bæta við vegna ástandsins á Spáni.

Utanríkisráðuneytið tilkynnti í gær að Icelandair hefði bætt við flugi frá Alicante til að Íslendingar á svæðinu gætu komist heim

Stað­festum Co­vid-19 til­fellum á Spáni fjölgaði um­tals­vert í gær og eru þau nú 56.188 talsins. Þá er Spánn komið fram úr Kína í fjölda dauðsfalla af völdum veirunnar.

Fréttablaðið spurðist fyrir um stöðu flugsins í dag og sagði Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair að það væru um tuttugu sæti eftir.

„Það gengur vel að bóka og það eru um tuttugu sæti eftir. Þetta er vél sem tekur 184 manns í sæti og það er því vel bókað í vélina,“ sagði Ásdís og sagðist eiga von á því að það yrði jafnvel uppselt.

Ekki verður dregið úr sætaframboði til að tryggja fjarlægð á milli farþega en þjónustan um borð verður með minna sniði en oft áður.

„Það verður ekki þjónusta um borð og áhöfnin er þarna til að sinna öryggishlutverki. Eins og sóttvarnarlæknirinn hefur talað um og ætlast er til að fólk sem sé smitað sé ekki að ferðast. Við verðum að treysta því. “