Von er á vonskuveðri á fimmtudag þegar ein dýpsta lægð sem sögur fara af skellur á landinu. Sveinn Gauti Einarsson segir í færslu á veðurfræðivefnum Blika að lægðin muni sennilega ekki slá dýptarmet en þó er ekki útilokað að um verði að ræða dýpstu lægð aldarinnar.
Guðbrandur Örn Arnarson, sem starfar við aðgerðarmál hjá Landsbjörgu, segir slysavarnafélagið og björgunarsveitir þess vera vel í stakk búnar til að takast á við slík vonskuveður.
„Við náttúrlega á hverjum degi erum með nákvæmlega sömu ráðstafanirnar, við fylgjumst alltaf bara mjög vel með. Í sjálfu sér það sem að kannski er helst búið að vera núna er Safetravel verkefnið okkar að upplýsa ferðamenn. Það er bara hluti af okkar daglegu starfsemi að vera vakandi fyrir því hvort það þurfi að fara út með einhverjar viðvaranir í samfélagið,“ segir Guðbrandur og bætir við að þetta sé að mörgu leyti ekki versta veðurspá sem slysavarnafélagið hefur séð.
Að sögn Guðbrands má þó búast við því að frá og með morgundeginum muni einhver verkefni tengd veðrinu koma á borð björgunarsveitanna.
„Færð spillist og það fer saman vindur frost og ofankoma og eftir því sem að við skiljum spána, það nær kannski hámarki á miðnætti á aðfaranótt fimmtudagsins. Þannig við vitum svo sem ekki hvað þetta mun hafa mikil áhrif á þann tíma sem náttúrlega er alltaf viðkvæmastur, það er svona þegar fólk er að fara í vinnu og skóla á morgnana og svo heim til baka seinnipartinn. En það hlýnar allavega eitthvað á morgun við ströndina þannig það getur verið að við fáum bara rok og rigningu eins og sagt er,“ segir hann.
„En við erum alltaf bara öllu viðbúin og við erum bara búin að vera undanfarna daga í talsvert miklum verkefnum og á fjallvegum líka. Þannig það er bara vonandi að fólk haldi sig heima og borði konfekt eins og einhvers staðar sagði.“
Hvernig ráðstafanir eruð þið vanalega með þegar von er á svona vonskuveðri?
„Í sjálfu sér engar sérstakar. Við erum það vel undirbúin eftir áratuga reynslu af svona verkefnum. Þá erum við náttúrlega á hverjum degi undirbúin undir svona hvelli. Þannig að ef við myndum einhvern tíma fá á okkur eitthvað veður sem myndi koma okkur algjörlega að óvörum þá værum við ekkert illa undir það búin, þannig lagað. Við erum með allan tækjabúnað og allan þann mannskap sem að til þarf og ég hef engar áhyggjur af því að þetta verði eitthvað öðruvísi heldur en allar hinar lægðirnar.“
Guðbrandur hvetur að lokum fólk til að huga að lausamunum í kringum heimili sín og passa að það séu ekki hlutir í kring sem geti fokið en hann býst þó við því að lægðin muni að mestu hafa áhrif á færðina.
Við erum búin að sleppa ágætlega í vetur og núna fara náttúrlega að koma kannski einhverjar aðrar lægðir en þetta er ekkert það versta sem við höfum séð. Við í sjálfu sér erum bara með mannafla og tækjabúnað og reynslu til þess að takast á við þetta.