Svifvængjaflugmenn í Fisfélagi Reykjavíkur voru með tog á svifvæng við Reykjavíkurhöfn við Kirkjusand á Menningarnótt til að kynna flugíþróttina.

Þetta var frumraun á Íslandi í að notast við bát í svifflugi og gekk það framar björtustu vonum. Fóru svifvængirnir mest í 2.500 fet eða um 760 metra hæð.

Björn Rúnar Guðmundsson, fisflugmaður hjá Fisfélagi Reykjavíkur, fékk hugmyndina og er hæst ánægður með afraksturinn.

„Strákarnir frá Why not paragliding og Happy world hjálpuðu okkur að skipuleggja þetta með tækjum frá köfunarþjónustunni. Þeir sköffuðu bát og vörubíl og starfsmenn og allir unnu í sjálfboðavinnu.“ segir Björn.

„Við þurftum að fá leyfi frá Isavia til að fljúga þarna yfir því þetta er aðflugsrými fyrir Reykjavíkurflugvöll og mjög strangt loftrými. Ef það væri ekki fyrir flugvöllinn myndum við örugglega gera þetta oftar,“ segir Björn sem skilar þakklæti til Isavia fyrir samvinnuna.

„Svo voru guðirnir með okkur, við fengum frábært veður og þetta gekk vonum framar. Við náðum fjörutíu flugum á fjórum tímum.“

Flestir iðka svifflugið á fjöllum hérlendis en einnig er hægt að vera með togbúnað sem er hengdur aftan á bíl eða bát og er þá hægt að láta toga sig í loftið hvar sem er.

„Við erum öll á bleiku skýi hvað þetta gekk allt saman vel í gær" segir Björn sem tók þetta skemmtilega myndband úr sínu flugi. Myndbandið er ekki ætlað lofthræddu fólki:

Ljósmyndari Fréttablaðsins var á svæðinu og tók þessar skemmtilegu myndir og má neðst sjá höfnina frá óvanalegu sjónarhorni.

Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur
Fréttablaðið/Sigtryggur