Samkvæmt nýrri úttekt frá Sameinuðu þjóðunum er búist við að stærsti hluti ósonlagsins, sem verndar plánetuna fyrir útfjólublárri geislun, muni ná sér fyrir 2040. Eftir að jarðarbúar tóku eftir því að ósonlagið var farið að rýrna virðast aðgerðir til að draga úr ósoneyðandi efnum undanfarin ár hafa skilað sér.

Losun manna á svokölluðum klórflúorefnum sem voru notuð í ýmiss konar iðnaði, í kæliskápa og fleira, varð til þess að ósonlag jarðar tók að þynnast upp úr miðri síðustu öld. Losunin varð meðal annars til þess að gat myndaðist á ósonlaginu.

Til að sporna við þessu var haldin ráðstefna í borginni Montréal í Kanada árið 1987 þar sem 46 þjóðir undirrituðu samkomulag, sem nefndist Montréal-bókunin, um að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Síðan þá hefur bókunin verið uppfærð níu sinnum og gerðist Ísland aðili árið 1989, sama ár og bókunin sjálf öðlaðist gildi.

Sigrún Karlsdóttir, skrifstofustjóri Náttúruvárþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, segir niðurstöður úttektarinnar vera mjög góðar fréttir og sýna að alþjóðasamkomulag af þessu tagi geti skilað góðum árangri.

Hún útskýrir að heildarmagn ósons í lofthjúpnum sé breytilegt eftir árstíma. Mest sé ósonmagnið síðla vetrar, nánar tiltekið eftir miðjan mars, en minnkar síðan jafnt og þétt er líður fram á vor og sumar. Síðla vetrar og í byrjun vors geta myndast aðstæður þar sem efnahvörf í heiðhvolfinu geta valdið mikilli eyðingu ósonlagsins, sérstaklega ef ósoneyðandi efni eins og klór og bróm eru til staðar.

„Nú sést árangurinn af þessu mikilvæga alþjóðlega átaki að draga úr og banna framleiðslu á ósoneyðandi efnum, sem skilar sér í því að þynning og einkum sú mikla þynning á ósonlaginu sem hefur átt sér stað á vormánuðum mun smám saman að heyra sögunni til og það skiptir miklu máli fyrir lífríki jarðar,“ segir Sigrún.

Til að mynda samþykktu aðilar Montréal-bókunarinnar árið 2016 að draga úr notkun á vetnisflúorkol­efnum, sem áttu upprunalega að koma í staðinn fyrir klórflúorkolefni. Þar sem vetnisflúorkolefni innihalda ekki klór var efnið álitið vera góður staðgengill á sínum tíma fyrir ósoneyðandi klórflúorkolefnið. Efnið er hins vegar hlaðið gróðurhúsalofttegundum sem hafa mjög slæm áhrif á umhverfið.

Petteri Taalas, aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, segir að þær vel heppnuðu aðgerðir sem mannkynið hafi framkvæmt í viðgerðum á ósonlaginu hafi skapað fordæmi fyrir annars konar loftslagsaðgerðir. „Velgengni okkar í að draga úr notkun ósoneyðandi efna sýnir hvað við erum fær um að gera og verðum að gera þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.“

David Fahey, vísindamaður hjá Haf- og veðurstofu Bandaríkjanna (e. NOAA), hefur einnig sagt Montréal-bókunina vera farsælasta umhverfissáttmála sögunnar og er sáttmálinn hvetjandi dæmi um það hvað þjóðir heimsins geta gert þegar þær koma saman og ákveða að bregðast við ákveðnu vandamáli.

Losun manna á svokölluðum klórflúorefnum varð til þess að gat myndaðist í ósonlaginu.
Fréttablaðið/EPA

Áhugaverðar staðreyndir

Ósonlagið er svæði í efri hluta lofthjúps jarðar þar sem styrkur ósons er meiri en annars staðar í lofhjúpnum.

Lofthjúpurinn er þunnt gaslag utan um jörðina og er að mestu úr súrefni og nitri en í honum eru einnig aðrar gastegundir.

Óson finnst alls staðar í andrúmsloftinu en er í mismiklu magni eftir hæð.

Styrkur ósons er mestur í um 20 kílómetra hæð frá jörðu.

Ósonlagið gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir lífríki jarðarinnar þar sem það gleypir í sig skaðlega útfjólubláa geislun frá sólu.