Margrét Dögg Guð­­geirs­dóttir Hjarðar segir að vel hafi gengið í fjölda­hjálpar­stöð Rauða krossins á Egils­stöðum í dag. Þangað hafi tals­verður fjöldi leitað til að borða morgun- og há­degis­mat og til að fá sér kaffi.

„Það hefur gengið vel. Það fór ró­lega af stað í morgun og svo var matur frá hálf eitt. Þá kom svo­lítið af fólki en þetta hefur verið á­gætis rennerí,“ segir Margrét.

Hún segir að fólk sé að átta sig á hlutunum núna. Fólki var til­kynnt í dag að það megi ekki snúa aftur heim og að rýming standi yfir í allan dag. Staðan verður metin á Seyðis­firði í dag og hversu mikil hætta er á fleiri skriðum. Greint var frá því fyrr í dag að önnur aurskriða hafi fallið í morgun og að alls hafi 11 hús orðið fyrir skemmdum á Seyðisfirði.

„Það eru ein­hverjir sem þurfa að finna sér aðra gistingu. Finna eitt­hvað sem hentar betur og við erum að vinna í því. Við höfum opið hér eins lengi og að­gerða­stjórn segir okkur að vera hér,“ segir Margrét Dögg og bætir við:

„Hér er kaffi og næring og kvöld­matur í kvöld. Fólk getur komið og fengið við­tal í sál­rænan stuðning eða pantað það í númer 1717.“

Bæði er kaffi og matur í boði í fjöldahjálparstöðinni.
Fréttablaðið/Anton Brink
Talsverður erill hefur verið í fjöldahjálparstöðinni í dag. Hún verður opin í allan dag og boðið upp á kvöldmat í kvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink
Páll Ágústsson var staddur í fjöldahjálparstöðinni að fá sér að borða.
Fréttablaðið/Anton Brink