Búið er að ná lágmarkshlutfalli kosningar í þremur af þeim sjö verkföllum sem stéttarfélagið Efling hefur boðað til á tímabilinu 18. mars til loka apríl. Kosning hófst klukkan tólf síðasta mánudag og lýkur á laugardaginn, klukkan 23.59.

„Það gengur allt mjög vel og við erum búin að ná þátttökuþröskuldinum í þremur verkfallsboðunum af sjö,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar stéttarfélags, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann sagðist eiga von á því að ná þátttökuþröskuldi í öllum sjö verkfallsboðunum áður en kosningu lýkur næsta laugardag.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að á hádegi í dag hafi félagið náð að uppfylla lágmarksþátttökuskilyrði fyrir þeim verkföllum sem félagið hefur einnig boðað til á sama tíma og Efling. Kraf­ist er 20% þátt­töku svo at­kvæðagreiðslan sé gild. Samkvæmt upplýsingum frá Ragnari náðist að uppfylla þá kröfu um hádegisbil í dag. Kosningu VR lýkur næsta þriðjudag, þannig hafa félagsmenn þeirra ögn lengri tíma til að kjósa um verkfall. 

Bíða niðurstöðu Félagsdóms

Stefnt er á fyrsta verkfall starfsfólk innan Eflingar hefjist klukkan 10 næsta föstudag. Viðar segir að skipulagning gangi vel en að þau bíði niðurstöðu Félagsdóms. Samtök atvinnulífsins hafa krafist þess fyrir dómi að verkfallið verði dæmt ólögmætt vegna þess að framkvæmd atkvæðagreiðslu hafi ekki verið samkvæmt lögum.

Spurður hvenær hann megi telja von á úrskurði Félagsdóms segir Viðar að það eina sem hann viti er að hann verði kallaður til með stuttum fyrirvara.

Félagsdómur hefur til morgundags til að skila úrskurði sínum. Greint var frá því í byrjun vikunnar að von væri á úrskurðinum í dag en samkvæmt formanni dómsins er ekki von á honum í dag.

Sjá einnig: Niðurstaða Félagsdóms kemur ekki í ljós í dag