Mikil fjölgun er í hópi þeirra fyrirtækja hér á landi sem gera upp í erlendri mynt, þrátt fyrir að ákvæði laga um það efni hafi verið þrengd til muna.
Hátt í 250 íslensk fyrirtæki, jafnt opinber og í einkageira, höfðu árið 2022 heimild hjá ársreikningaskrá til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli í stað íslenskrar krónu. Flest þeirra gera upp í evrum, 129 að tölu, en næstflest í Bandaríkjadal, 101 félag.
Þetta kemur fram í nýju svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar. Samkvæmt því hefur ársreikningaskrá ríkisskattstjóra veitt alls 248 félögum heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt.
Meðal þessara fyrirtækja eru 27 útgerðar-, fiskvinnslu- og eldisfyrirtæki, auk tólf fyrirtækja sem starfrækja umboðsverslun eða heildverslun með fisk og fiskafurðir.
Flest fyrirtækjanna á listanum tengjast eignarhaldsfélögum, alls 68 að tölu. Þá eru þrettán fyrirtæki í hugbúnaðargerð á listanum, fjórir lyfjaframleiðendur og fjögur álfyrirtæki.
„Það vekur athygli hvað stórútgerðin og stóriðjan eru þarna áberandi,“ segir Þorbjörg Sigríður, „og einnig hitt hvað flóttinn frá krónunni er almennur í öllum atvinnugreinum,“ bætir hún við.
Íslenskum fyrirtækjum sem fengið hafa þessa heimild til að gera upp í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu hefur fjölgað að mun á síðustu árum, þrátt fyrir að ákvæði laga um þetta efni hafi verið þrengt til muna fyrir tæpum áratug. Mesta fjölgunin var á síðasta ári, þegar 23 fyrirtæki bættust við listann, en samtals hefur á sjöundi tugur nýrra félaga fengið heimildina á síðustu fimm árum.
„Það stendur auðvitað upp á stjórnvöld að útskýra af hverju almenningur einn þarf að glíma við krónuhagkerfið og taka á sig kostnaðinn af því,“ segir Þorbjörg Sigríður.
Fram kemur í svari ráðherra til þingmannsins að félögin, sem hafa óskað eftir því að færa bókhaldsbækur sínar í erlendum gjaldmiðli, fá heimildina á þeim grundvelli að viðkomandi mynt sé starfrækslugjaldmiðill viðkomandi félags og vegi hlutfallslega mest í aðalefnahagsumhverfi þess.
„Ástæða þess að fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegu umhverfi sækja í þessa heimild er að þetta auðveldar samanburð á uppgjöri við samkeppnisaðila og eykur á allt gagnsæi,“ segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.