Hvala­skoðunar­sam­tök Ís­lands lýsa von­brigðum sínum og undrun yfir þeim að­gerðum sem sáust og fjallað var um í Kveik þætti Ríkissjón­varpsins í gær, þegar mis­heppnuð til­raun var gerð til að af­lífa hnúfu­bak í Skaga­firði í nóvember 2018. Þetta kemur fram í fréttatil­kynningu frá Hvala­skoðunar­sam­tökunum.

„Það vekur furðu að MAST [Mat­væla­stofnun] hafi ráð­lagt lög­reglu að af­lífa dýrið sem var flækt í net án þess að nokkur til­raun hafi verið gerð til að skera dýrið laust úr netinu fyrst. Það að venju­legum riffli og hagla­byssu hafi verið beitt til að af­lífa full­vaxinn hnúfu­bak er dýra­níð enda dugðu hátt í sex­tíu skot í fimm klukku­stunda langri at­lögu ekki til að deyða dýrið,“ segir í til­kynningunni sem sam­tökin sendu einnig á MAST og um­hverfis­ráð­herra.

„Sú van­þekking sem birtist í því að eftir að skot­hríðin hófst að þá töldu lög­reglu­menn sig vera að skjóta á hrefnu en ekki hnúfu­bak segir meira en mörg orð um hve mis­ráðin og illa í­grunduð að­gerðin var,“ segir þar enn fremur.

Vilja óháða rannsókn á atvikinu

Hvala­skoðunar­sam­tök Ís­lands óska þess við Um­hverfis­ráð­herra að óháð rann­sókn fari fram á því hvernig sú á­kvörðun var tekin að skjóta með rifflum á hnúfu­bakinn. Sam­tökin segja það brýnt að tryggja að at­vik sem þetta endur­taki sig ekki og til þess þarf að fá úr því skorið hvernig þetta gat gerst.

Jafn­framt benda sam­tökin á að innan vé­banda þeirra er að finna marga sér­fræðinga í hvölum og hegðun þeirra. Eðli­legt er að þessi reynsla og þekking nýtist þegar hvalir eru í slíkum vanda og því förum við fram á það að Hvala­skoðunar­sam­tökin séu hluti þess við­bragð­steymis sem kallað er saman við slíkar að­stæður.