Laufey Ebba Eðvarðsdóttir hefur fengið tugi skilaboða frá krökkum sem hafa fengið særandi skilaboð eða ummæli frá nafnlausum aðilum á samfélagsmiðlum en hún birti fyrr í dag færslu þar sem myndir af skilaboðunum fylgdu með. Óhætt er að segja að skilaboðin hafi verið gróf og gerð til þess að meiða viðkomandi.

Hún segist hafa fengið að heyra í hátt í 50 börnum sem hafa orðið fyrir einelti á samfélagsmiðlum en hún hefur síðustu daga verið að ræða neteinelti á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem mörg börn fylgja henni. Það sé þó ekki aðeins á TikTok þar sem börn verða fyrir árásum heldur einnig á miðlum á borð við Snapchat og Instagram þar sem hægt er að njóta ákveðinnar nafnleyndar.

Laufey hefur upp á síðkastið mikið rætt um neteinelti á samfélagsmiðlinum TikTok.

„Ég vona að fjölskylda þín deyi í bruna“

Að sögn Laufeyjar hefur hún síðastliðinn sólarhring fengið að heyra fjölmargar ógeðfelldar sögur frá ýmsum aðilum um neteinelti. Hún segir sögurnar ekki aðeins koma frá ungum krökkum heldur séu til að mynda ein skilaboðin frá stelpu sem er fimmtán ára og önnur frá stelpu sem er tvítug. „Þannig þetta eru ekki bara börn, þetta er kannski frá tíu ára upp í tvítugt,“ segir Laufey í samtali við Fréttablaðið.

„Það er einn sem er ættleiddur og það er sagt við hann „ég myndi líka hafa skilið þig eftir eins og foreldrar þínir.“ Síðan er ein sem er nýbúin að missa pabba sinn og það er verið að segja „pabbi þinn var barnaperri“ og að það væri gott að hún hafi misst hann,“ segir Laufey um skilaboðin sem hún hefur fengið að sjá.

„Svo var stelpa sem fékk skilaboð sem sögðu „ég vona að fjölskylda þín deyi í bruna“ og „þú ert viðbjóður, ef þú værir leikfang væri búið að henda þér í ruslið því það myndi enginn vilja eiga þig.“ Þetta er bara ógeðslegt,“ segir hún. „Fólk er að taka eigið líf út af svona ummælum, þetta er bara hræðilegt.“

Ein skilaboðin sem Laufey birtir eru til stráks sem er ættleiddur.

Foreldrar þurfi að ræða við börnin sín

Laufey segir að um stórt vandamál sé að ræða en það sé ekki nógu mikið talað um það. „Mér finnst fólk oft vera rosalega fljótt að segja að þetta séu bara siðlaus börn, en staðreyndin er að mínu mati sú að 99 prósent eru bara börn sem vilja sjást, þeim líði illa og vilja því að öðrum líði illa. Það er bara rosalega sorglegt.“

Sjálf segir Laufey að sum ummæli í sinn garð geti enn sært þrátt fyrir að hún sé fullorðin og með gott sjálfstraust. „Ég held að flest börn á aldrinum tíu til fjórtán ára séu bara mjög viðkvæm og að finna út úr því hver þau eru og finnst þau ekki vera nógu klár, ekki nógu stór, ekki nógu sæt, ekki nógu mjó, þú veist, og að fá svona... Ég veit ekki hvað ég hefði gert.“

Laufey segir að flestir sem senda særandi skilaboð líði sjálfum illa.

Hún segir mörg börn upplifa mikla skömm vegna skilaboðanna og þori því ekki að leita til foreldra eða annarra fullorðna í kringum sig. Þá séu foreldrar oft ómeðvitaðir hvað á sér stað á samfélagsmiðlum og því sé það mikilvægt að þau tali við börnin sín svo hægt sé að koma í veg fyrir frekara einelti. Aðspurð um hvort það þyrfti að fræða börn betur um samfélagsmiðla og þær hættur sem þar leynast segir hún svo vera.

„Mér finnst bara að foreldrar eigi að ræða alvarlega við börnin sín um orð og afleiðingar. Það vill enginn vera vondur, það lítur enginn á sig sem vondan. Mér finnst mikilvægt að foreldrar og aðrir fullorðnir miðli því til barna að orðin þín skilgreina þig. Þau eru orkan sem þú ert að koma með út í þennan heim,“ segir Laufey.

Hæhæ, Ég vil byrja á að vara viðkvæma við myndunum með þessum þráði. Ég er á tiktok og með ansi mörg börn sem fylgjast...

Posted by Laufey Ebba Eðvarðsdóttir on Saturday, August 1, 2020