Reykjavík Animal Save hélt samstöðuvöku í dag fyrir dýr sem leiða átti til slátrunar hjá Sláturfélagi Suðurlands. Í viðburði segir að þau vilji bera vitni þegar þegar lömb og kindur séu sendar til slátrunar og vilji vera með þeim til síðustu stundar. Með því að mæta fyrir utan sláturhúsið sendi þau skilaboð um að dýrin séu einstaklingar sem eigi rétt á umhyggju, frelsi og réttlæti, og að þeirra dauði sé ekki falinn umheiminum. 

„Það gekk rosa vel. Það komu allavega tveir bílar á meðan við stóðum sem við náðum myndum af. Auk þess sem einn var að klára þegar við vorum að mæta. Þetta voru því í heildina um þrír bílar sem komu á þeim klukkutíma sem við vorum þarna,“ segir Helga Kristrún Unnarsdóttir, ein skipuleggjenda samstöðuvöku sem haldin var við Sláturfélag Suðurlands á Hellu í dag.

Hún segir að þau geri sér ekki almennilega grein fyrir því hversu mörg dýr eru í hverjum bíl en segir að bílarnir séu alls ekki smáir og að þeir líti út fyrir að vera vel troðnir af dýrum. Í dag var verið að færa til slátrunar svín eins og má sjá í myndskeiðinu hér að neðan.

Helga segir að þau séu yfirleitt staðsett fyrir utan girðinguna og ekki hafi tekist að biðja ökumenn að stöðva bílana áður en þeir fóru inn. Þeim hafi því ekki tekist að ræða við þá. Hún segir að yfirleitt sé gerður samningur á milli mótmælenda og sláturhússins og samkvæmt þeim samningi sem þau gera þá hafi þau einungis leyfi til að standa fyrir utan. Þau vonist þó til þess að þau fái mögulega að fara innan girðingar á einhverjum tímapunkti.

Dauði dýranna sé ekki falinn umheiminum

Helga segir að þau hafi með sér skilti með ýmsum skilaboðum. Þar sé til dæmis eitt með mynd af dýri og við það stendur „Ég er einhver, ekki eitthvað“. 

Á öðru er mynd af lambi og á því stendur „Ég fæ aðeins að lifa eitt sumar“.

Grilluðu pylsur á samstöðuvökunni

Fyrr í mánuðinum var hópur mótmælenda sem mætti sérstaklega á samstöðuvökuna til að mótmæla henni. Þar grilluðu þau pylsur. Helga segir að þau hafi ekki mætt í dag en að þó þau hafi gert það myndi það ekki breyta neinu fyrir þau.

Sjá einnig: Eru ekki að mót­mæla bændum: „Snýst um dýrin“

Reykjavík Animal Save var stofnað fyrir um mánuði síðan hér á Íslandi og segir Helga að þau stefni á að halda slíkar samstöðuvökur að minnsta tvisvar í mánuði á meðan veður leyfir. 

Samtökin séu friðsamleg og leggi áherslu á að fylgja lögum í mótmælum sínum. Um 400 slíkir hópar eru starfræktir í löndum víða um heim. Samtökin eru stofnuð með það markmið að vekja athygli á því sem gerist bak við luktar dyr í sláturhúsum.