Slysavarnafélagið Landsbjörg vekur athygli á hugsanlegri snjóflóðahættu til fjalla þar sem mikið hefur snjóað að undanförnu. Þetta á jafnt við um svæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og víðar á landinu.
„Slysavarnafélagið Landsbjörg vill benda göngufólki á að í mörgum heimafjöllum við þéttbýli eins og t.d. Esju kanna að skapast töluverð snjóflóðahætta. Göngufólki sem ætlar að nýta sér gott veður til útivistar er bent á að halda sig við merktar gönguleiðir og/eða hafa með í för þekkingu á mati á snjóflóðahættu, snjóflóðaýli, skóflu og stöng,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörg.
Þá er fólk hvatt til að afla sér upplýsinga um aðstæður, til dæmis á safetravel.is og snjóflóðasíðum Veðurstofu Íslands.