Mikil úlfúð ríkir meðal kennara við Menntaskólann á Akureyri (MA) vegna vinnu skólanefndar skólans við umsóknir um stöðu skólameistara.

Kennarar kröfðust þess að Ásmundur Einar Daðason, mennta-málaráðherra, leysti upp skólanefnd MA og ákvað ráðuneytið í gær að skipa nefnd til að rannsaka störf skólanefndar.

„Til að sátt ríki um skipunina hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ákveðið að skipa sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Enn fremur segir að ráðuneytið taki ábendingar Kennarafélags skólans alvarlega.

Jón Már Héðinsson skólameistari hættir störfum í ár vegna aldurs. Að loknu umsóknarferli raðaði skólanefnd MA sjö umsækjendum eftir hæfi og mælti með einum umsækjanda við ráðherra. Trúnaður ríkir um niðurstöðuna en ekki er ólíklegt að um ræði Karl Frímannsson sviðsstjóra hjá Akureyrarbæ. Auk Karls er meðal umsækjenda Sigurlaug A. Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari. Ásmundur Einar skipar í embættið til fimm ára.

Á fundi skólanefndar MA 5. maí síðastliðinn kom fram að borist hefðu frá Kennarafélagi MA athugasemdir um hæfi tveggja nefndarmanna vegna mögulegra tengsla þeirra við Karl. Annar nefndarmaðurinn er Elías Gunnar Þorbjörnsson. Karl er yfirmaður hans hjá bænum og réð hann til starfa.

Í ályktun kennara við MA sagði að svo virtist sem skólanefnd hefði farið út fyrir valdsvið sitt. Kennarafélagið fór sem fyrr segir fram á að ráðherra leysti skólanefndina upp og taldi að ráðningarferlið bæri að endurtaka.

Valdís Björk Þorsteinsdóttir, formaður kennarafélagsins við MA, segir mikilvægt að störf skólanefndar séu hafin yfir allan vafa.

Kristrún Lind Birgisdóttir, formaður skólanefndar MA, vísar því á bug að nefndin hafi farið út fyrir valdsvið sitt. Skólanefnd sé ekki hæfisnefnd.

Spurð hvort betra hefði verið ef Elías Gunnar hefði vikið sæti vegna stöðu hans og Karls innbyrðis þegar nefndin fjallaði um skólameistaramálið, segir Kristrún að allir nefndarmenn hafi metið sig hæfa í þetta verkefni sem ráðuneytið fól nefndinni.

Áður en ráðuneytið birti viðbrögð sín í gær sagði Kristrún að snúa mætti gagnrýni kennara og ávirðingum um íhlutun skólanefndar við og spyrja: „Er Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri hæft til að meta störf nefndarinnar? Það eru þrír umsækjendur innan veggja skólans um þessa stöðu.“

Karl Frímannsson vildi ekki tjá sig.