Veitur hafa beðist afsökunar á töfum framkvæmda á gatnamótum við Framnesveg og Hringbrautar í Reykjavík. Mikil umræða hefur verið á samfélagsmiðlum um framkvæmdina og töluverðrar óánægju gætt meðal íbúa með framgang og umgjörð.
„Gagnrýnin er réttmæt, verkið hefur tafist fram úr hófi og aðstæður ekki verið til fyrirmyndar á verkstað. Við biðjumst afsökunar á því. Ástæðurnar eru margvíslegar, verkið er flókið og margir sem koma að, bæði verkefnum Veitna og Reykjavíkurborgar á og við Framnesveg, sem og framkvæmdum á Bykoreit og Héðinsreitnum,“ segir í færslu Veitna á Facebook síðuna „Vesturbærinn.“
Veitur segjast geta gert betur að dregið verði lærdóm af því hvernig fór.
„Við höfum gert okkar besta síðustu daga til að laga aðstæður og vonum að þið sýnið því skilning að í kringum svona framkvæmdir er alltaf töluvert rask, jafnvel þegar staðið er að þeim eins og best verður á kosið.“
„Við sjáum nú fyrir endann á verkefninu. Verið er að leggja lokahönd á tengingu raflagna og verður í framhaldinu strax fyllt upp í skurðinn á Framnesvegi. Að því loknu mun verktakinn leggja snjóbræðslu, væntanlega um miðja næstu viku. Þá verður svæðið búið undirbúið fyrir steypu. Hvenær hún kemur veltur svo á veðri, útlit er fyrir töluverða rigningu í næstu viku og það er ekki gott steypuveður,“ segir í tilkynningunni.