Samtök grænmetisæta á Íslandi og Vegan samtökin stóðu saman að sýningu á heimildarmyndinni Dominion eftir Chris Delforce í Bíó Paradís í gærkvöldi. 

Myndin afhjúpar öfgafullar aðstæður og slæma meðferð á dýrum í landbúnaði í Ástralíu. Áður en sýning hófst var tilkynnt að frammi yrði fólk sem myndi veita andlegan stuðning og svara spurningum skyldi fólk ekki vilja eða geta horft á alla myndina vegna innihalds hennar.

Sjá einnig: Vilja vekja fólk til umhugsunar

„Það var talað við nokkuð mikið af fólki sem kom út. Ég held að það hafi verið um átján manns sem fóru af sýningunni og komu ekki aftur inn. Ég held að það sé nokkuð gott miðað við að þarna voru rúmlega 200 manns,“ segir Birkir Steinn Erlingsson, formaður Vegan-samtakanna á Íslandi í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir ástæðu fólks fyrir því að yfirgefa sýninguna hafa verið margar og ólíkar. „Sumir voru hágrátandi, en ég held að enginn hafi farið í illu. Ég held að fólk hafi einfaldlega ekki ráðið við hvað var verið að sýna,“ segir Birkir.

Rétt er að vara viðkvæma við myndskeiðinu sem fylgir hér að neðan. Um er að ræða stutt myndbrot úr myndinni þar sem sýndar eru upptökur úr földum myndavélum þar sem starfsmaður sláturhúss reynir að rota eða deyfa kind áður en hún er send til slátrunar. 

Flestir ánægðir þrátt fyrir að þeim hafi þótt erfitt að horfa

Valgerður Árnadóttir er ein þeirra sem stóð að sýningunni og stóð frammi til að veita fólki stuðning. „Ég sjálf er svo viðkvæm og á svo erfitt með að horfa á svona, þannig ég ákvað að vera frammi og tala við fólk. Við prentuðum einnig litla miða sem við dreifðum til fólks með upplýsingum um veganisma,“ segir Valgerður í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Sumir sem gengu út voru grátandi og tóku þetta mjög nærri sér. Ég skildi það mjög vel. Þau voru samt jákvæð og þökkuðu okkur fyrir að sýna myndina og fyrir að vekja þau til umhugsunar. Ég átti gott spjall við alla sem komu út,“ segir Valgerður.

Hún segir að hluti þeirra sem gengu út hafi verið grænkerar sem ekki gátu horft lengur, en að flestir sem hafi farið út hafi einfaldlega þurft smá pásu og síðan farið aftur inn og lokið við að horfa á myndina.

„Mér fannst eins og það væri vel tekið í þetta, þó myndin sé erfið og það sé erfitt að horfa. En þetta er raunveruleikinn,“ segir Valgerður.

Myndin virðist hafa haft víðtæk áhrif á fólk því að sögn Valgerðar komu bæði út fólk sem nú sögðust íhuga að hætta kjötneyslu auk þess sem nokkrir grænkerar sögðust hafa fengið innblástur til að taka meiri þátt baráttu samtakanna.  

„Það voru að minnsta kosti þrír af þeim sem gengu út sem sögðust hafa verið kjötætur þegar þau komu en væru nú alvarlega að íhuga að hætta því.“

Vona að kvikmyndahús taki myndina til sýningar

Aðgangur var ókeypis á myndina í gær og var stóri salur kvikmyndahússins fullur á sýningunni. Aðstandendur sýningarinnar telja að um þriðjungur áhorfenda hafi verið grænkerar, eða vegan. 

Ekki er ljóst hvort myndin verði tekin til almennra sýninga hér á landi en Birkir segir að þau stefni á að tala við kvikmyndahús og vonast til þess að myndin verði tekin til sýningar í sem flestum kvikmyndahúsin. „Svo vonum við auðvitað að myndin fari á Netflix. Þau sem gerðu myndina eru að vinna að því.“

Náðu myndefni með drónum og földum myndavélum

Chris Delforce, leikstjóri myndarinnar, vann ásamt fjölda annarra rannsakenda í marga mánuði að því að safna hundruðum klukkustunda af myndefni með drónum, földum myndavélum og öðrum myndavélum. Myndin er talsett af, meðal annars, leikaranum Joaquin Phoenix, leikkonunni Rooney Mara, söngkonunni Sia og förðunarfræðingnum Kat Von D.

Í myndinni eru sýndar aðstæður búfénaðs í Ástralíu og er myndinni skipt þannig að farið yfir eina tegund og tilgang ræktunar í einu. Þannig er byrjað á svínum og síðan farið yfir í hænsni sem eru ræktuð fyrir egg og síðan hænsni ræktuð fyrir kjöt og svo framvegis.

Í myndinni er lögð áhersla á að fjalla um sex megin atriði misnotkunar dýra. Það er innan matvælaiðnaðar, tískuiðnaðar, þar sem dýr eru notuð til skemmtunar eins og í dýragörðum, í náttúrulífi þar sem dýr eru veidd, gæludýr og tilraunadýr. Lögð var áhersla á að skoða býli og staði sérstaklega þar sem notaðar voru alþjóðlegar aðferðir sem eru löglegar og þykja mannúðlegar. Greint er frá á Laika Magazine.

Hægt er að horfa á stiklu myndarinnar hér að neðan. Á heimasíðu myndarinnar er bæði hægt að horfa á myndina gegn gjaldi og finna ýmsar upplýsingar um gerð hennar.