Einstaklingur var handtekinn við Landspítalann um kvöldmatarleyti í gær fyrir að hafa veist að starfsmanni bráðamóttökunnar. Auk þess skemmdi hann innanstokksmuni spítalans. Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar en einstaklingurinn var handtekinn fyrir brot gegn opinberum starfsmönnum auk eignaspjalla og vistaður í fangaklefa.

Þá var á svipuðum tíma tilkynnt um rán í verslun í Hafnarfirði en samkvæmt dagbók lögreglunnar fóru tveir aðilar inn í verslunina og veittust að starfsmanni áður en þau yfirgáfu vettvanginn í bíl. Lögregla stöðvaði bifreiðina á Reykjanesbraut og handtók þrjá aðila sem í bifreiðinni voru. Tvennt vistað í fangaklefa í þágu rannsóknar.

Þá er einnig greint frá eftirför lögreglu í Ártúnsbrekku rétt fyrir klukkan eitt í nótt en eftir að lögregla hafði gefið ökumanni merki um að stöðva vegna rásandi aksturslags fór hann ekki að fyrirmælum. Eftirför lögreglu endaði í Árbænum en ökumaðurinn sagðist ekki hafa vitað að hann ætti að stoppa því hann taldi sig ekki hafa gert neitt rangt.