Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði í mörg horn að líta í gær­kvöldi og í nótt. Flest málin voru þó minni­háttar og af­greidd á vett­vangi.

Lög­reglu­menn í mið­borginni höfðu af­skipti af ölvuðum manni sem var á ráfi um kvöld­matar­leytið í gær. Manninum var ein­fald­lega sagt að fara heim til sín sem hann gerði. Þá var til­kynnt um tvö inn­brot með skömmu milli­bili, annars vegar í austur­bænum og hins vegar í vestur­bænum, og eru málin í rann­sókn.

Á ellefta tímanum í gær­kvöldi var til­kynnt um mann sem datt af raf­magns­hlaupa­hjóli. Maðurinn, sem var tals­vert ölvaður, slasaðist sem betur fer ekki og vildi hann enga að­stoð lög­reglu.

Rétt fyrir klukkan ellefu í gær­kvöldi óskuðu sjúkra­flutninga­menn eftir að­stoð lög­reglu þar sem ölvaður maður hafði veist að þeim. Hann var orðinn ró­legur þegar lög­regla kom á staðinn og þáði að­stoð. Ekki reyndist þörf á frekari að­komu lög­reglu.

Loks var til­kynnt um eld í runna í austur­bænum á öðrum tímanum í nótt. Íbúi á svæðinu var að ljúka slökkvi­starfi þegar lög­regla kom á vett­vang.

Lög­reglu­menn á lög­reglu­stöð 2, sem sinnir Hafnar­firði, Garða­bæ og Álfta­nesi, fóru í út­kall um átta leytið í gær­kvöldi vegna um­ferðar­ó­happs þar sem bif­reið og bif­hjól lentu saman. Meiðsli voru minni­háttar og ætlaði öku­maður bif­hjólsins sjálfur að leita á slysa­deild. Rétt fyrir klukkan 23 var svo til­kynnt um grun­sam­legar manna­ferðir þar sem maður var að lýsa inn í bíla. Hann var farinn þegar lög­regla kom á vett­vang.

Á tíunda tímanum í gær­kvöldi var til­kynnt um vöru­bif­reið sem ekið var utan í ljósa­staur í um­dæmi lög­reglu­stöðvar 3 sem sinnir Kópa­vogi og Breið­holti. Öku­maður bif­reiðarinnar ók af vett­vangi en var stöðvaður skömmu síðar af lög­reglu.