Mót­­­mælandi veittist að danska þing­manninum Sikandar Siddiqu­e og for­eldrum hans fyrir utan þing­húsið í Kaup­manna­höfn í dag. Siddiqu­e er for­­maður hins andrasíska og um­hverfis­sinnaða flokks Frie Grønne.

For­eldrar Siddiqu­e eru frá Pakistan og öskraði maðurinn, í­klæddur bol sem á stóð „til fjandans með íslam“, á þau og spurði hvort þingmaðurinn ætlaði ekki að fara úr landi og taka for­eldra sína með.

„Ég held að þú ættir að pakka sama draslinu þínu og fara heim og þú getur tekið for­eldra þína með þér,“ öskraði maðurinn.

For­eldrar Siddiqu­e eru frá Pakistan og sagði maðurinn þeim að koma sér þangað aftur.
Mynd/DR

Siddiqu­e segir í samtali við danska ríkis­út­varpið DR að dagur, sem átti að vera lýð­ræðis­fögnuður, hafi breyst í and­hverfu sína.

„Þau komu hingað til að fagna lýð­ræðinu og því þau eru stolt af syni sínum og þurfa svo að upp­lifa eitt­hvað svona. Ég er mjög sorg­mæddur yfir því að for­eldrar mínir þurfi að ganga gegnum þetta mín vegna. Ég fæ ekki skilið hvernig er hægt að koma svona fram við 82 ára mann í göngu­grind.“

Hann birti mynd­skeið af at­vikinu á Twitter. Þar sést þó ekki að maðurinn sem veittist að þeim elti þau einnig um stund.

„Ég hef lengi haft á­hyggjur af öryggi fjöl­skyldu minnar vegna stjórn­mála­ferils míns og í dag gerist þetta,“ segir Siddiqu­e og hann hafi óttast um öryggi for­eldra sinna.

„Ég vil ekki hugsa um hvað hefði getað gerst hefði lög­reglan ekki verið þarna. For­eldrar mínir voru í upp­námi er þeir settust upp í bílinn.“ Hann hefur ekki á­kveðið hvort hann leiti form­lega til lög­reglu vegna málsins.

Fer fyrir flokki hægri öfga­manna

DR hafði uppi á manninum sem veittist að Siddiqu­e og for­eldrum hans. Það er Toke Utzen Lor­enzen sem fer fyrir nýjum flokki hægri­öfga­manna, Danske Pat­riot­er.

„Við komum við opnun þingsins til að mæta kjörnum stjórn­mála­mönnum vegna stefnu þeirra,“ segir hann um á­stæðu þess að hann fór til þingsins.

„Hann hefur sjálfur valið að koma með þau hingað. Ef þeim fannst þeim ógnað vegna hegðunar minnar gagn­vart Sikandar, þá er það hans sök. Svo það sé á hreinu, þá á­varpaði ég for­eldra hans ekki,“ segir Lor­enzen.

Það er réttur minn sem Dana að segja út­lendingi að fara heim til sín.

„Það er réttur minn sem Dana að segja út­lendingi að fara heim til sín.“ Hann óttast ekki að þetta hafi slæm á­hrif á mál­stað hans. Það sé fyndið að frétta­maður hringi nú vegna mynd­skeiðsins en ekki þegar mynd­skeið eru birt af inn­flytj­endum ganga í skrokk á Dönum.