„Þetta hefur senni­lega gerst ein­hvern tímann í nótt. Ég fer um klukkan ellefu og mæti síðan klukkan tíu í morgun og þá er að­eins önnur að­koma,“ segir Dalmar Ingi Daða­son, veitinga­stjóri á Bragganum Bistró við Naut­hóls­veg 100, í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Líkt og greint var frá í morgun er búið að rífa stráin, sem flutt voru hingað til lands frá Dan­mörku í tengslum við endur­byggingu braggans, upp úr moldinni. Dalmar segir að að­koman hafi verið tölu­vert verri en myndirnar sem birtar hafa verið gefi til kynna.

„Erum bara að reka staðinn“

„Ég var búinn að vaða í þetta og reyna að ganga eins snyrti­lega frá þessu og ég gat,“ segir hann. Búið er að reyna að gróður­setja þau strá sem fundust víð og dreif um svæðið aftur í moldina. At­vikið sé hins vegar af­skap­lega leiðin­legt upp á reksturinn að gera, en komi ekki beint á ó­vart miðað við um­ræðuna um braggann, endur­upp­byggingu hans og fram­úr­keyrslu vegna kostnaðar við hann. 

„Þetta er frekar leiðin­legt upp á reksturinn að gera. Við skiljum alveg reiðina í sam­fé­laginu og botnum svosem ekkert í fram­úr­keyrslunni sjálfri. En við erum í rauninni bara að reka staðinn og höfum þannig séð ekkert með kostnaðinn að gera,“ segir Dalmar.

Líkt og fram hefur komið gerði upp­haf­leg kostnaðar­á­ætlun vegna braggans ráð fyrir 158 milljónum króna. Eins og staðan er í dag hefur verk­efnið kostað 415 milljónir og fyrir það hafa borgar­yfir­völd verið harð­lega gagn­rýnd. Stráin 800, sem flutt voru til landsins og heita dún­melur, kostuðu sam­tals 757 þúsund krónur og þá bættust við 400 þúsund krónur við að setja þau niður. 

Stráin verið tekin ófrjálsri hendi

„Það er búið að planta þessu niður og þetta eykur bara við kostnaðinn. Þetta gerir ekkert betra,“ segir Dalmar og bætir við að reiðinni sé ekki beint í rétta átt með skemmdar­verkum líkt og þessum. 

Staðurinn opnaði um miðjan júní og er ætlað að lífga upp á svæðið við Naut­hóls­vík og Há­skólann í Reykja­vík. Þannig sé hug­myndin að bjóða upp á fjöl­breytt úr­val af mat og drykkjum fyrir há­skóla­nem­endur en einnig gesti og gangandi. Dalmar rekur staðinn ásamt föður sínum, Daða Júlíusi Agnarssyni.

Hann býst ekki við því að hægt verði að gróður­setja stráin þannig að að­koman verði líkt og þegar staðurinn opnaði. Búið sé að traðka ein­hver þeirra niður og þá hafi fólk farið ráns­hendi og hirt stök strá, en hvert þeirra kostaði borgina 950 krónur.