Aðalsteinn Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, fagnar áætlunum stjórnvalda um að grípa til efnahagsaðgerða til að koma til móts við veitingastaði vegna tekjumissis í tengslum við hertar samkomutakmarkanir. Segist hann þó ekki geta verið viss um hvort aðgerðir stjórnarinnar munu nægja fyrr en lagafrumvarpið þess efnis liggur fyrir.

„Ég er að renna yfir tilkynninguna og hef verið að funda um þetta með SVEIT,“ sagði Aðalsteinn við Fréttablaðið. „Ég hef útskýrt fyrir stjórnvöldum þá slæmu aðstöðu sem veitingageirinn hefur fundið sig í síðustu tvö ár og auðvitað framundan árið 2022. Ástandið hefur einkennst af því að það er verið að takmarka grunnstoðir greinarinnar, þ.e.a.s. opnunartímann og fjöldasamkomur. Tekjufall hefur orðið mikið í kjölfarið.“

Aðalsteinn segir veitingageirann öðruvísi samsettan en hefðbundin heildverslun. „Við höfum kannski ekki fallið milli skips og bryggju varðandi þessa styrki. Tekjufallið var of hátt fyrir viðspyrnustyrkina, en það er að breytast núna, sem er mjög jákvætt. Við sjáum væntanlega hvað felst í frumvarpinu bara eftir helgi, og það sem er mjög mikilvægt fyrir veitingageirann er að það verði lagt allt kappkost á það að samþykkja frestun á staðgreiðslu.“

„Vissulega erum við þakklát fyrir að fá sérstaka aðstoð,“ heldur Aðalsteinn áfram. „Það er svosem kominn tími á það. Byggingageirinn hefur fengið frekar mikla aðstoð miðað við aðra, hefur farið upp í 19 milljarða hingað til í „Allir vinna“-átakinu. Við erum ekki að fara fram á svo mikið en okkur reiknast svo til að þetta verði að vera um sjö til tíu milljarðar. Þar vegur hæst launakostnaður og aðstoð við laun á uppsagnarfresti sem einhverjir þurfa væntanlega að taka til núna. Það hefur ekki verið mikið af uppsögnum hingað til en aðgerðirnar koma vissulega seint og einhverjir munu þurfa að taka til slíkra ráðstafana, því miður.“

Aðalsteinn Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT.
Mynd/Aðsend

„Hræðsluáróðurinn hefur verið þannig að menn henda veitingastöðum með vínveitingaleyfi undir lestina fyrst.“

Aðalsteinn segir að launahækkanir og gjaldhækkanir séu fram undan í veitingageiranum og að erfitt verði að takast á við þær án aðstoðar. „Síðan er auðvitað líka spurning um nýja staði sem hafa opnað í þessu ástandi, hverig á að koma til móts við þá, því þeir hafa margir neyðst til að loka. Ég hef svo sem fulla trú á að það verði útfært á viðeigandi hátt.“

Þá telur Aðalsteinn að það myndi hjálpa veitingastöðum gríðarlega að fá einn klukkutíma aukalega í opnunartíma þótt samkomutakmarkanir verði óbreyttar. „Eðli máls samkvæmt er hægt að tvísetja staðina á þessum auka klukkutíma, fá tvær hollur inn og þannig sóttvarna betur og fengið færri í sama rými. En það fer út um gluggann þegar það er verið að takmarka svona svakalega eins og núna. Við sjáum ekki fram á að vera með tuttugu manns inni á veitingastað þótt það sé hámarkið, því það vilja bara allir halda sig heima. Hræðsluáróðurinn hefur verið þannig að menn henda veitingastöðum með vínveitingaleyfi undir lestina fyrst, þótt það séu ekki endilega meiri líkur á að maður smitist ef maður fer út að borða með fjölskyldu og maka og fær sér vínflösku með en þegar maður bara fer út í búð.“