Daði Agnarsson, veitingamaður á hinum umtalaða Bragga í Nauthólsvík opnar sig um umræðuna um braggann í nýrri stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni og spyr hvort ráðamenn séu á villigötum. Hann segir að sér finnist að umræðan ætti að snúast um rétta hluti, „hluti sem kosnir fulltrúar hafa á undanförnum mánuðum afbakað og skælt og sér í lagi Vigdís Hauksdóttir.“

Daði tekur fram að hann vilji fjalla um málið út frá sinni hlið, sem Reykvíkingur, veitingamaður og atvinnurekandi. Hann hafi óbeit á bruðli eins og aðrir Íslendingar og sé ekki að afsaka framkvæmd, kostnað eða skipulag Reykjavíkurborgar í málinu. 

„Til að byrja með hefur umræðan alltaf snúist um Braggann. Ég vil benda á að Bragginn er aðeins eitt hús af þremur ásamt lóðum sem kostnaðurinn snýst um. Þetta eru því Bragginn, frumkvöðlasetur, náðhús og tengibyggingar ásamt lóðum sem málið snýst um, ekki “bara” einhver braggi,“ segir Daði og býður hverjum sem er sem hafi áhuga á að koma og skoða húsin og lóðirnar til að sjá um hversu viðamikið verkefni sé um að ræða.

Hlægilegt að hlusta á borgarfulltrúa lýsa Bragganum sem kofaskrífli

Þá segist Daði fagna því að kjörnir fulltrúar séu að rýna í framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar, því það sé deginum ljósara að verkefni á vegum borgarinnar undanfarin ár hafi nánast öll farið langt umfram kostnaðaráætlun og nefnir Daði Perluna og Ráðhúsið til að mynda. Hann segir að það hafi verið ljóst frá upphafi framkvæmda að um metnaðarfullt verkefni var að ræða, að umturna þúsundum fermetra fa ónýtum húsum og lóðum á fallegasta stað Reykjavíkur í nothæfar byggingar með öllum nútímakröfum.

„Að hlusta á Vigdísi Hauksdóttir, Eyþór Arnalds og fleiri aðila í minnihlutanum lýsa Bragganum sem kofaskrífli er hlægilegt. 
Þetta er fólkið sem veit hvað mest um þessar framkvæmdir. Að tönglast alltaf “bara” á Bragganum í þessari umræðu er greinilega þeirra leið til að reyna að gera lítið úr verkefninu. Aldrei er talað um þyrpingu húsa eða annað slíkt. Nei, kofaskríflið, bragginn og önnur níðrandi orð eru frekar notuð.

Með svona óábyrgri umræðu eru þessir aðilar að afvegleiða umræðuna viljandi og sem fyrr, að kasta steinum í glerhús vitandi betur. Þess vegna segi ég við þetta fólk: SKAMMIST YKKAR!“

Starfsmenn þurfi að afsaka eigin vinnustað

Eins og kemur fram segir Daði að umræðan sé óábyrg, þar sem óvægin umræðan hafi gert það að verkum að átján harðduglegir einstaklingar sem starfi á Bragganum hafi þurft að afsaka sinn eigin vinnustað. 

„Þetta er fólk sem þarf að svara fyrir mistök annara, svara fyrir óábyrga umræðu stjórnmálamanna og reyna að útskýra að hvorki þau né þeir aðilar sem koma að rekstri Braggans Bar & Bistró hafa ekkert með þann kostnað, framkvæmdir eða annað sem misfórst í byggingu húsana að gera.“

Daði segir að lokum að rekstur fyrirtækis og það að hafa starfsmenn í vinnu sé mikil ábyrgð. Hann sé þakklátur fyrir viðskiptavini Braggans en í ljós eigi eftir að koma hvort að óvægin umræða um Braggann eigi eftir að draga dilk á eftir sér í framtíðinni gagnvart starfsfólki og rekstraraðilum.

„Enn, við starfsmenn og rekstraraðilar Braggans Bar & Bistró höldum okkar striki, alveg eins og við höfum gert frá opnun staðarins. Okkar markmið er að gera betur í dag en í gær og halda ótrauð áfram. Ég held að ráðamenn mættu gera það sama.“