Veitingamaðurinn Bragi Skaftason sem rekur meðal annars vínveitingastaðinn Tíu Dropa telur að stjórnvöld ættu að taka fleiri þætti inn í hækkun sína á almennu áfengisgjaldi sem og öðrum matvælum um 7,7 prósent eins og boðað er í nýju fjárlagafrumvarpi. Hann telur að umhverfisáhrif vöru ættu að spila stærra hlutverk í því hvernig álagning er ákveðin.

„Þarna erum við að tala um skattlagningu sem er beint að nákvæmlega þessari vöru,“ segir Bragi en í hans tilfelli ræðir um léttvín „Þessi vara hefur hækkað um hátt í 20% á árinu í innkaupum. Flutningur á vörunni sömuleiðis. Aðgangshömlur ríkisins í gegnum ÁTVR eru ekki litlar og kosta síaukinn pening að komast í gegnum,“ segir Bragi sem tekur fram að í hans hugmyndum felist hliðrun á skattlagningu frekar en beinar niðurgreiðslur „Þarna eru markaðshömlur til staðar sem hægt væri að losa um gagnvart ákveðnum umhverfisvænni vörum, til þess einfaldlega að hvetja til neyslu á slíkum vörum umfram hinar sem hafa þá meiri umhverfisáhrif,“ segir Bragi sem telur að hægt að sé að líta til margvíslegra þátta í vöruinnflutningi og álagninu.

„Til dæmis að horft sé til fjarlægðar í flutningi. Sem hlýtur að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,“ segir Bragi og tekur fram að í sínum eigin viðskiptum reyni hann að finna vín sem staðsett eru eins nálægt ströndum Íslands og hægt er til að minnka sitt umhverfisspor.

„Varan hefur klárlega minni umhverfisáhrif ef hún þarf ekki að vera flutt tíu til fimmtán þúsund kílómetra heldur kannski bara fjögur þúsund í staðinn. Það segir sig sjálft,“ segir Bragi

„Eins þegar um staðgöngu vöru er að ræða. Það er að segja vöru sem inniheldur í raun og veru sömu gæði og sömu innihaldsefni, þó að um til dæmis um önnur vínber sé að ræða, að þá sé líka horft til þess hvort við framleiðsluna séu notuð eiturefni og önnur umhverfisspillandi efni. Það eru til allskonar vottanir sem sýna fram á þetta,“ segir Bragi sem vonast til að stjórnvöld sýni því meiri áhuga að taka hugmyndir sem þessar inn í það ferli þegar álagningar á vörur eru ákveðnar.

Veitingastaður Braga flytur inn margvísleg náttúruvín og segir Bragi að vínin séu valin með umhverfisáhrif þeirra í huga. Það verði þó að vera ávinningur af því að fara þá leið.
Mynd/aðsend

Niðurgreiðum innlendar vörur núþegar

„Við gerum þetta núþegar með margt. Við reynum að borða mat úr okkar nánasta umhverfi,“ segir Bragi og tekur sem dæmi Íslenskan landbúnað „en það hefur kannski öfug áhrif þar sem það er mikil kjötrækt hér á landi en það er sama. Það hefur áhrif að halda því hér á landi,“ segir hann.

Bragi tekur þó fram að hann sé ekki að segja að banna ætti ákveðnar vörur en hugsa þurfi meira um þau áhrif sem tilteknar vörur hafa ef umhverfisspor þeirra er mikið.

„Ég vil alls ekki standa fyrir einhverskonar bannhugmyndum. Ég vil alls ekki vera að banna einum eða neinum að njóta léttvína frá Ástralíu til dæmis. Ég er að bara að segja að ef þú ætlar að nota slíka vöru þá verður þú að greiða fyrir hana raunverð og þú ert ekki að því ef þú greiðir ekki það gjald sem framleiðsla og flutningur á þeirri vöru hefur í för með sér,“ segi Bragi.

Þegar um staðgöngu vöru er að ræða. Það er að segja vöru sem inniheldur í raun og veru sömu gæði og sömu innihaldsefni, þó að um til dæmis um önnur vínber sé að ræða, að þá sé líka horft til þess hvort við framleiðsluna séu notuð eiturefni og önnur umhverfisspillandi efni. Það eru til allskonar vottanir sem sýna fram á þetta.