Vinnu­staða­eftir­lit Fag­fé­laganna kom upp um stór­felldan launa­þjófnað síðasta föstu­dag á tveimur veitinga­stöðum í Reykja­vík sem eru í eigu sömu aðila. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu Fag­fé­laganna.

Starfs­fólk veitinga­staðanna tveggja virðist að­eins hafa fengið lág­marks­laun greidd, en vinnudagur þeirra spannaði tíu til sex­tán klukku­stundir, sex daga vikunnar. Þá fengu þau engin vakta­á­lög, enga yfir­vinnu, or­lof eða annað sem gengur og gerist á ís­lenskum vinnu­markaði og hefur verið samið um.

Eftir­lit­steymi Fag­fé­laganna bauð fólkinu að komast út úr þeim að­stæðum sem það var í, en allir starfs­menn sem voru á vakt þann daginn þáðu boðið.

Við nánari eftir­grennslan kom svo í ljós að starfs­menn veitinga­staðanna bjuggu í íbúð á vegum at­vinnu­rek­enda en var boðið að fara í íbúð á vegum stéttar­fé­lags, sem þeir þáðu.

Í ljósi þessa mun Kjara­deild Fag­fé­laganna gera launa­kröfu á hendur fyrir­tækjanna fyrir hönd starfs­mannanna, auk þess sem teymið mun verða þeim innan handar að finna ný störf og nýtt heimili.

„Það er ó­líðandi að fyrir­tæki skuli koma fram á þennan ó­manneskju­lega hátt og mun eftir­lit­steymi Fag­fé­laganna leggja á­herslu á að fara í eftir­lits­ferð í veitinga­geirann á næstu vikum,“ segir í til­kynningunni.

Þá vilja Fag­fé­lögin benda fólki á að hægt er að senda á­bendingar á póstfang Fagfélaganna ef grunur leikur á að verið sé að brjóta á starfs­fólki á vinnu­markaði.