Strætó bs. hefur ákveðið að gefa frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu á næsta „gráa degi“ eða þegar loftmengun mælist yfir heilsuverndarmörkum.

„Við erum að bíða eftir næsta gráa degi,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Farþegar munu aðeins geta nálgast frímiða í strætó í appinu. Þá munu þeir geta sótt sér dagspassa sem gerir þeim heimilt að ferðast um höfuðborgarsvæðið án endurgjalds.

Guðmundur segir að aðeins verði um eitt skipti að ræða. Spurður um kostnaðinn sem fylgir slíku átaki segir hann að þegar strætó gefi frítt í strætó á dögum eins og menningarnótt sé yfirleitt talað um að kostnað í kringum þrjár milljónir. Hann áætlar þó að kostnaður gæti verið minni á slíkum dögum því ekki noti allir appið.

Verkefnið er unnið í samráði við heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, umhverfisráðuneytinu og fleiri aðila. 

Að sögn Guðmundar mun heilbrigðiseftirlitið láta Strætó vita ef stefnir í „gráan dag“ og svo mun Strætó tilkynna íbúum á höfuðborgarsvæðinu með fyrirvara, svo fólk geti undirbúið sig að skilja bílinn eftir heima þann dag. 

„Ef þetta gengur vel þurfum við að fá stjórn Strætó til að setja meira í verkefnið eða fá eigendur strætó, sveitarfélögin, til að gera það. Pólitíkin virðist svo vera að ræða þetta núna líka,“ segir Guðmundur og vísar þannig til tillögu Sjálfstæðisflokksins um ýmsar aðgerðir í loftgæðamálum sem lögð var fram á borgarstjórnarfundi í dag. 

Í tillögu flokksins er, meðal annars, lagt til að frítt verði í strætó alltaf á „gráum dögum“, að skoðaðir verði möguleikar á takmörkunum á þungaflutningum með efni sem veldur svifryksmengun á dögum þar sem loftmengun fer yfir heilsuverndarmörk og að dregið verði úr notkun nagladekkja innan borgarmarka.

Sjá einnig: Leggja til að frítt verði í Strætó á gráum dögum

Ekki hægt að sópa burt gasinu

Í byrjun mánaðarins komu nokkrir dagar í röð þar sem loftmengun á höfuðborgarsvæðinu mældist yfir heilsuverndarmörkum. Svava S. Steinardsóttir hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sagði þá í samtali við Fréttablaðið að vandamálið við slíka loftmengun væri ekki einungis svifrykið, heldur einnig  köfnunarefnið díoxíð, sem er gas sem kemur frá útblæstri bifreiðanna. Það sé líka mjög slæmt fyrir heilsu fólks og það sé einungis hægt að koma í veg fyrir það með því að minnka umferð bíla. 

Sjá einnig: Ekki nóg að sópa og rykbinda: „Þú sópar ekki burtu gasinu“