Ingvar Ómars­son at­vinnu­hjól­reiða­maður segir í við­tali við helgar­blað Frétta­blaðsins frá al­var­legu slysi sem hann varð fyrir þegar ferillinn var að hefjast árið 2015.

Ingvar segist þakk­látur fyrir að fyrst hann hafi orðið fyrir þessu slysi hafi það gerst í ná­lægð við einn besta spítala Evrópu, Erasmus MC þar sem fram­kvæmdar voru tvær að­gerðir á höfði hans á sama tíma.

„Aðal­læknirinn þar bjargar lífi mínu, en hún á­kvað að gera báðar að­gerðirnar á sama tíma.“ Hann segir að það sé ekki vaninn og í raun hafi það þarna verið gert í fyrsta sinn í Evrópu. „Ef hún hefði valið aðra að­gerðina hefðum við í raun þurft að sætta okkur við að laga annað en skilja hitt eftir. Hún var á­kveðin í að gera þetta og fyrir það er ég þakk­látur,“ segir Ingvar, sem á aug­ljós­lega erfitt með að hugsa út í hvað hefði getað orðið.

„Þetta var reynt í fyrsta sinn og tókst því í fyrsta sinn. Það var því fylgst vel með næstu mánuði enda getur tauga­skaði komið fram síðar.

Eitt það sem ég fékk ekki til baka var lyktar­skynið, en þær taugar rifnuðu við höggið. Ég sjálfur áttaði mig ekki á að það væri farið fyrr en mánuði síðar. Þá var gott veður og ég ætlaði að draga andann og finna blóma­lykt en fann ekkert. Þá brotnaði ég niður, þegar ég fattaði það. Það var erfitt.“

Ingvari var sagt að mögu­lega kæmi lyktar­skynið til baka á tveimur árum en það gerði það ekki.

„Ef ég þyrfti að fórna einu skyn­færi væri það lík­lega þetta en það er ekkert gaman að tapa þessu. Eina til­fellið þar sem það er já­kvætt er núna, því ég á níu mánaða gamla dóttur. Ég veit aldrei hve­nær ung­frúin er búin að gera í buxurnar,“ segir hann og hlær, en pabbinn hefur aftur á móti heldur aldrei fundið ilminn af ný­fæddri dóttur sinni.