Það er fátt mikilvægara fyrir einstaklinga en að geta áttað sig á umhverfi sínu, samhengi þess, hættum og áskorunum. Þeir sem finna fyrir öryggi í hugsun og gjörðum og fá staðfestingu utan frá styrkjast og finna fyrir vellíðan, sjálfstraust þeirra vex. Fullorðnir þekkja þetta vel og hafa almennt gengið í gegnum lærdómsferli þar sem þeir hafa rekið sig á og bætt þekkingu sína á því hvaða hegðun og færni getur skilað þeim ásættanlegum samskiptum og framgangi í lífinu. Börn eru einnig fljót að læra slíkt og þó mótun á hegðun og hugsun sé endalaus, getum við haldið því fram að á þeim tíma sem einstaklingar eru hvað móttækilegastir fyrir leiðbeiningu sé skynsamlegt að reyna að hafa áhrif.

Við vitum í dag að kvíði og spenna er hluti af þeirri tilveru að vaxa úr grasi, það er eðlilegt að hafa slíkar tilfinningar. Lífið er ekki dans á rósum og það er stöðugur lærdómur. Reynsla er eitthvað sem kemur eingöngu með því að prófa sig áfram og reka sig á. Þegar einkenni líkt og kvíði eða vanlíðan taka yfir og verða í forgrunni varðandi hegðun og samskiptaform einstaklinga erum við komin í vanda sem getur reynst þrautinni þyngra að leysa úr. Það er enn erfiðara þegar slíkt gerist hjá börnum eða unglingum sem hafa jafnvel ekki nægan skilning eða þroska til að átta sig á þeim. Þau þurfa því leiðbeiningu og kennslu í margvíslegu formi auk meðferðar í sumum tilvikum.


Það að skapa sterka einstaklinga sem geta tekið virkan þátt í samskiptum og mótað umhverfi sitt er flókið viðfangsefni og oft dynja á áföll og ófyrirséðir hlutir. Það hvernig við tökumst á við slíkar áskoranir, hvaða leiðir við veljum og hvernig við nálgumst náungann og samfélagið í kringum okkur á sama tíma mótar okkur. Það er býsna augljóst að við erum ekki eins, höfum ekki sömu forsendur, sömu tækifæri né sama umhverfi eða möguleika. Það hvernig við spilum úr þeim skiptir hins vegar höfuðmáli. Það að skilgreina sig og vita fyrir hvað þú stendur er lykilatriði í því að týna sér ekki við að fylgja bara straumnum og því sem aðrir gera. Einstaklingurinn verður að geta tekið á gagnrýninn hátt afstöðu til þess sem mætir honum og tekið ákvarðanir, staðið og fallið með þeim, sýnt auðmýkt og haldið áfram, því lífið fer ekki í neina pásu.


Margir skilgreina sig eftir þeim gildum sem þeir alast upp við, heiðarleika, réttsýni, ábyrgð svo dæmi séu tekin en einnig ef slíku er ekki fyrir að fara. Menntun, peningar, staða foreldra eða fjölskyldu í samfélaginu getur líka skipt máli. Það er hins vegar alls ekki svona augljóst og eru mörg dæmi um það þegar einstaklingar fara þvert á sitt samfélagslega umhverfi og annað hvort gera betur eða verr. Hver er sinnar gæfu smiður eins langt og það nær, sumir þurfa að hafa verulega mikið fyrir henni, aðrir ekki. Á endanum snýst þetta samt allt um það að einstaklingurinn standi á eigin fótum og geti tekist á við lífið og tilveruna. Til þess að geta það þarf hann að vita hver hann er og fyrir hvað hann stendur.