Bæjar­ráð Vest­manna­eyja­bæjar kom saman í dag til að ræða leyfis­veitingar og fyrir­hugaðar sam­komur í Vest­manna­eyjum í ljósi hertra reglna stjórn­valda um sam­komu­tak­markanir.

Bæjar­ráð sam­þykkti fyrr í vikunni tæki­færis­leyfi fyrir brennu, flug­elda­sýningu, á­fengis­sölu utan­dyra og tón­leika­haldi. Allir þeir aðilar sem sóttu um þessi leyfi hafa hins vegar aftur­kallað um­sóknir sínar eftir fréttir dagsins.

„Skipu­leggj­endur styrktar­tón­leika, sem til stóð að halda á laugar­dags­kvöldið, hafa aftur­kallað um­sóknina og á­kveða að af­lýsa tón­leikunum. Jafn­framt hefur Björgunar­fé­lag Vest­manna­eyja, sem hafði sent inn um­sókn um blystendrun í Herjólfs­dal, dregið um­sókn sína til baka. Auk þess hafa allir þeir for­svars­menn fyrir­tækja sem sóttu um tæki­færis­leyfi um verslunar­manna­helgina, þ.e. 900 grills, Krárinnar og Brot­hers Brewery, á­kveðið að aftur­kalla um­sóknir sínar. Hafa allir þessir aðilar með því sýnt sam­fé­lags­lega á­byrgð. Þá hefur bæjar­ráð á­kveðið að setja skil­yrði um lokun Herjólfs­dals fyrir um­ferð fólks ef leyfi verður veitt fyrir brennunni á Fjósa­kletti föstu­dags­kvöldið 31. júlí nk.,“ segir í fundar­gerð bæjar­ráðs.

Þar segir einnig að þegar bæjar­ráð tók á­kvarðanir um tæki­færis­leyfim og aðra við­burði fyrr í vikunni var það gert eftir sam­ráð við lög­reglu­stjórann í Vest­manna­eyjum, sýslu­manninn í Vest­manna­eyjum, slökkvi­stjóra og eftir fund al­manna­varnar­nefndar með Víði Reynis­syni hjá em­bætti ríkis­lög­reglu­stjóra.

„Það er því ekki þannig að um­sagnir hafi verið af­greiddar um­hugsunar­laust eins og ýjað hefur verið að í einum fjöl­miðli í Vest­manna­eyjum. Engar upp­lýsingar lágu þá fyrir um ógnina eða hertar reglur sem nú blasir við vegna fjölgunar til­fella Co­vid-19 smita,“ segir í fundar­gerðinni.

Í lok fundar­gerðarinnar kemur bæjar­ráð á fram­færi þakk­læti til allra þeirra sem standa í fram­línunni við að takast á við hina að­steðjandi ógn og hvetur jafn­framt Vest­mann­eyinga til að snúa bökum saman og takast á við á­standið í sam­einingu.

„Vest­mann­eyingar hafa sýnt að þegar mest liggur við er sam­heldni og sam­staða okkar sterkasta vopn,“ segir í lok fundar­gerðarinnar