Fjórði þáttur Veislunnar fer í loftið í kvöld en í þáttunum flakka þeir Gunnar Karl og Dóri DNA landshorna á milli og hitta áhugavert fólk til skrafs og matargerðar.
Á leið sinni á hvern stað safna þeir kunnáttu og hráefni til veisluhalda sem Gunnar Karl matreiðir í lok hvers þáttar með dyggri aðstoð heimamanna og oftar en ekki fá áhorfendur einnig að njóta tónlistar úr þeirri heimabyggð.

Í þættinum í kvöld fara félagarnir um Suðurland, fá sér kaffi í Hveragerði, henda í pitsu á Ölverki og útbúa smurbrauð með Jakobi og Guðmundi á Matkránni. Komið er við í Skálholti og Selfossi og ekið áfram út í Traustholtshólma og staðarhaldari sóttur heim.
Sex vikur í tívolí fram undan
Segja má að Gunnar Karl hafi komið íslenskri matarmenningu á kortið á heimsvísu í gegnum eldamennsku sína, enda fyrsti Íslendingurinn til að fá Michelin-stjörnu á stað sínum, Dilli. Í sumar mun staðurinn færa sig tímabundið um set og verður opinn í Tívolíinu í Kaupmannahöfn í sex vikur.
„Það er húsnæði inni í tívolígarðinum sem kallað er Kínverski turninn. Þar er mikið um pop-up veitingastaði yfir sumartímann og við munum skipta sumrinu með dönskum og spænskum stöðum. Ég ætla bara að loka Dilli á Íslandi og við förum öll til Danmerkur þar sem við munum vonandi eiga yndislegar sex vikur í tívolí. Við tökum með okkur ógrynni af íslensku hráefni og kynnum vel land og þjóð.“

Gamlar hefðir að hverfa
Aðspurður segir Gunnar vinnuna við þættina hafa verið kærkomna síðasta sumar þegar veitingarekstur var í hægagangi vegna samkomutakmarkana.
„Við fengum svo ótrúlega gott veður allan tímann. Ég skrifaði matreiðslubókina North fyrir nokkrum árum og hún er svolítið kveikjan að þessum þáttum. Í bókinni fjalla ég um Dillið og birti uppskriftir, en númer eitt, tvö og þrjú er hún ferðalag um landið að hitta framleiðendur sem ég hef verið að versla við og heyra þeirra sögu. Við fórum gjörsamlega um allt við gerð bókarinnar og heimsóttum sömu staði mikið í þáttunum.
Við skoðuðum íslenskar hefðir og hvernig mikið af því sem við tökum sem sjálfsögðum hlut er að deyja út. Eins og til að mynda að þurrka harðfisk í hjöllum á veturna, búa til saltfisk samkvæmt gömlu hefðunum og taðreyking. Margt af þessu er hægt og rólega að hverfa. Þess vegna gerði ég þessa bók. Allt sem við erum að gera á Dillinu hefur að gera með íslenskt hráefni, hefðir og sögu.“
„Eins og til að mynda að þurrka harðfisk í hjöllum á veturna, búa til saltfisk samkvæmt gömlu hefðunum og taðreyking. Margt af þessu er hægt og rólega að hverfa."

Gunnar segir þeim félögum alls staðar hafa verið tekið höfðinglega.
„Heimsóknirnar voru líklega sérlega kærkomnar á Covid-tímum. Það var líka yndislegt fyrir mig og Dóra að rækta vinskapinn í rólegheitum,“ segir Gunnar að lokum, en það dylst engum sem horfir á þættina að þeir skemmtu sér vel.