Mat­væla­stofnun og Til­rauna­stöð Há­skóla Ís­lands að Keldum vinna nú að því að finna á­stæður þess að fjöldi kanína hefur veikst og drepist í Elliða­ár­dal. Helstu mögu­leikar sem er verið að skoða er brátt veiru­smit eða eitrun af ein­hverju tagi. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Mat­væla­stofnun. „Fólki er ráð­lagt að taka ekki með sér kanínur heim til að forðast út­breiðslu smits ef um slíkt er að ræða. Starfs­fólk Reykja­víkur­borgar fylgist með kanínunum, kemur veikum dýrum til dýra­læknis og kemur hræjum í örugga eyðingu,“ segir í til­kynningunni. Í gær var greint frá því að mein­dýra­eyðir borgarinnar hirti 36 hræ í dalnum á sunnudaginn og fimm­tán til við­bótar í gær, alls rúm­lega 50 hræ.

Það er ekkert sem bendir til eitrunar af völdum músa- eða rottu­eiturs, frost­lagar eða salta vegna hálku­varna. Þeir veiru­sjúk­dómar sem helst geta leitt kanínur hratt til dauða eru annars vegar smitandi lifrar­drep og hins vegar myxoma­veiru­sýking.

„Or­sök smitandi lifrar­dreps er harð­gerð veira af calici-tegund (e. Rabbit Haemorr­hagic Disea­se Virus). Smitaðar kanínur drepast oftast á innan við einum sólar­hring og oft sjást engin sér­stök sjúk­dóms­ein­kenni áður en þær drepast snögg­lega. Veiran hefur að­eins einu sinni komið upp hér á landi árið 2002 á Suður- og Suð­vestur­landi. Sjúk­dómurinn dró mikinn fjölda af kanínum til dauða á kanínu­búum og í heima­húsum áður en náðist að ráða niður­lögum hans. Það er í fyrsta og eina skipti sem sjúk­dómurinn hefur greinst hér á landi,“ segir þar enn fremur.

Hinn veiru­sjúk­dómurinn er vegna myxoma veiru sem til­heyrir svo­kölluðum pox veirum. Dýrin drepast oft á innan við tveimur sólar­hringum og þá helst með ein­kenni frá öndunar­færum og bólgum á höfði.

Báðir þessir veiru­sjúk­dómar sýkja ein­göngu kanínur. Öðrum dýrum eða fólki stafar ekki hætta af smiti.

Fólk með kanínur heima fyrir ætti að forðast að fara í Elliða­ár­dalinn á meðan ó­víst er hvort um annan hvorn þessara sjúk­dóma er að ræða. Veiran getur lifað lengi í um­hverfi smitaðra kanína og mjög hætt við að fólk beri veiruna með sér heim á skóm og fatnaði. Fólk ætti alls ekki að taka veikar kanínur heim ef kanínur eru heima fyrir. Starfs­fólk Reykja­víkur­borgar fylgist með kanínunum, kemur veikum dýrum til dýra­læknis og kemur hræjum í örugga eyðingu