Margir hafa eflaust velt þessu fyrir sér á tímum Covid-faraldursins sem er af völdum kórónuveirunnar SARS-CoV-2 hvort veirur séu aðeins til vandræða eða hafi hlutverki að gegna í mannslíkamanum.
„Óhætt er að fullyrða að veirur gegni hlutverki í mannslíkamanum þrátt fyrir að þekking á því sé enn afar takmörkuð.“
Svo hefst svar Snædísar Huldar Björnsdóttur, sameindalíffræðings og dósents við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands á Vísindavef háskólans við spurningunni „Gegna veirur hlutverki í mannslíkamanum“.
Hún segir að ef skoðaðar eru veirur sem fyrirfinnast í mannslíkamanum sé ljóst að þær hafi mismunandi áhrif sem veltur á eðli þeirra. Sumar veirur hverfa úr líkamanum að lokinni sýkingu, „en aðrar ílengjast og þá er erfðaefni þeirra gjarnan innlimað í erfðamengi mannafruma.“

Fjölbreytt veiruflóra í líkamanum
Snædís segir að nýlegar vendingar í sameindalíffræði hafi leitt í ljós að í mannslíkamanum finnist mikið og fjölbreytt veiruerfðaefni. Það sé þó ekki hlaupið að því að meta hvort það sé úr veirum í dvala eða óvirkum veirum, sem ekki mynda veiruagnir.
Í líkamanum finnist veirur sem séu þekktir sýklar en að öllum líkindum er stærstur hluti þeirra skaðlaus þótt ekki sé auðvelt að sýna fram á það. Þá séu þekkt dæmi um að veirusýkingar hafi jákvæð áhrif á frumur spendýra og veiti þá oft vörn gegn öðrum sýkingingum.
„Langflestar veirur í líkamanum sýkja þó alls ekki mannafrumur heldur bakteríur sem eru í samlífi með okkur. Þær eru fagar og finnast í mestum fjölda í líkamanum þar sem mikið er um örverur eins og í ristlinum,“ segir í svari Snædísar. Fagar veirur eru þær sem sýkja bakteríur.

Örverurnar eru samkvæmt svari hennar mjög mikilvægar fyrir líkamsstarfsemi og hafa fagarnir án efa mikil áhrif þar, bæði til góðs og ills, hvort sem er á örverur eða hýsilinn sem þær búa í. Fagar geta borið gen til baktería sem gera þeim auðveldara um vik að verjast lyfjum eða valda sjúkdómseinkennum í mannfólki.
„Aðrir gætu jafnvel verið hluti af vörnum líkamans og komið í veg fyrir sýkingar af völdum ákveðinna baktería. Vitað er að fagar hafa mikil áhrif á örverusamfélög í náttúrunni og tilraunir hafa að einhverju leyti sýnt fram á slíkt í dýrum. Veirur eru því hluti af flóknu en þýðingarmiklu samfélagi örvera í mannslíkamanum,“ segir að lokum í svari Snædísar.