Margir hafa ef­­laust velt þessu fyrir sér á tímum Co­vid-far­aldursins sem er af völdum kórónu­veirunnar SARS-CoV-2 hvort veirur séu að­eins til vand­ræða eða hafi hlut­verki að gegna í manns­líkamanum.

„Ó­hætt er að full­yrða að veirur gegni hlut­verki í manns­líkamanum þrátt fyrir að þekking á því sé enn afar tak­mörkuð.“

Svo hefst svar Snæ­dísar Huldar Björns­dóttur, sam­einda­líf­fræðings og dósents við Líf- og um­hverfis­vísinda­deild Há­skóla Ís­lands á Vísinda­vef há­skólans við spurningunni „Gegna veirur hlut­verki í manns­líkamanum“.

Hún segir að ef skoðaðar eru veirur sem fyrir­finnast í manns­líkamanum sé ljóst að þær hafi mis­munandi á­hrif sem veltur á eðli þeirra. Sumar veirur hverfa úr líkamanum að lokinni sýkingu, „en aðrar í­lengjast og þá er erfða­efni þeirra gjarnan inn­limað í erfða­mengi manna­fruma.“

Sumar veirur hverfa úr líkamanum að lokinni sýkingu en aðrar í­lengjast.
Fréttablaðið/Getty

Fjöl­breytt veiru­flóra í líkamanum

Snæ­dís segir að ný­legar vendingar í sam­einda­líf­fræði hafi leitt í ljós að í manns­líkamanum finnist mikið og fjöl­breytt veiru­erfða­efni. Það sé þó ekki hlaupið að því að meta hvort það sé úr veirum í dvala eða ó­virkum veirum, sem ekki mynda veiru­agnir.

Í líkamanum finnist veirur sem séu þekktir sýklar en að öllum líkindum er stærstur hluti þeirra skað­laus þótt ekki sé auð­velt að sýna fram á það. Þá séu þekkt dæmi um að veiru­sýkingar hafi já­kvæð á­hrif á frumur spen­dýra og veiti þá oft vörn gegn öðrum sýkingingum.

„Lang­flestar veirur í líkamanum sýkja þó alls ekki manna­frumur heldur bakteríur sem eru í sam­lífi með okkur. Þær eru fagar og finnast í mestum fjölda í líkamanum þar sem mikið er um ör­verur eins og í ristlinum,“ segir í svari Snæ­dísar. Fagar veirur eru þær sem sýkja bakteríur.

Veirur sem sýkja bakteríur, fagar, eru stór hluti þeirra ör­vera sem finnast í líkamanum. Myndin sýnir frumur þarma­bakteríunnar Escher­ichia coli og faga sem sýkja hana.
Mynd/Vísindavefur Háskóla Íslands

Ör­verurnar eru sam­kvæmt svari hennar mjög mikil­vægar fyrir líkams­starf­semi og hafa fagarnir án efa mikil á­hrif þar, bæði til góðs og ills, hvort sem er á ör­verur eða hýsilinn sem þær búa í. Fagar geta borið gen til baktería sem gera þeim auð­veldara um vik að verjast lyfjum eða valda sjúk­dóms­ein­kennum í mann­fólki.

„Aðrir gætu jafn­vel verið hluti af vörnum líkamans og komið í veg fyrir sýkingar af völdum á­kveðinna baktería. Vitað er að fagar hafa mikil á­hrif á ör­veru­sam­fé­lög í náttúrunni og til­raunir hafa að ein­hverju leyti sýnt fram á slíkt í dýrum. Veirur eru því hluti af flóknu en þýðingar­miklu sam­fé­lagi ör­vera í manns­líkamanum,“ segir að lokum í svari Snæ­dísar.