Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir stöðuna núna í faraldrinum hér á landi vera góða. Hann segist hinsvegar hafa áhyggjur af jólaboðunum í ár. Þetta kom fram í viðtali við Þórólf í Bítinu á Bylgjunni um helgina.
Hann segir aðspurður sjálfur hafa verið meðal þeirra sem hafi varað við því að fara of hratt í afléttingar á takmörkunum og tilslakanir.
„En við þurfum náttúrulega líka að slaka á. Við höfum sagt það að ef þetta fer niður og tilefni gefst til þá reynum við að slaka eins og við teljum öruggt að gera.
En auðvitað verða alltaf skiptar skoðanir um það hvort það eigi að slaka, hvort það sé slakað of mikið eða hvort það sé að slaka of mikið. Þannig hefur þetta allan tímann verið og verður vafalaust áfram,“ segir Þórólfur.
Öll hópamyndun áhætta
Þórólfur segir fjölda vilja fá undanþágur frá aðgerðum. Flóð undanþágubeiðna hafi verið eitt það mest krefjandi við starfið.
Þá var Þórólfur spurður út í gagnrýni þjálfara í handbolta og körfubolta á takmarkanir á íþróttastarfi fullorðinna, á meðan íþróttastarf barna-og unglinga sé aftur leyft. Hann segist hafa heyrt gagnrýnina en biðlar til fólks um að skoða heildarmyndina.
„Heildarmyndin er sú að við höfum verið að reyna að takmarka myndun hópa af hvaða toga sem er. Við erum ekki endilega að flokka hópa niður í litla áhættuhópa eða mikla áhættuhópa. Það hefur skilað þessum árangri að við erum að ná þessu alveg niður og það er að ganga bara mjög vel. Þá munum við reyna að aflétta.
Við erum að biðja fólk um að skoða þessa heildarmynd og fara ekki of hratt því veiran er ekki endilega að spyrja nákvæmlega um í hvaða hópi einstaklingar eru. Auðvitað er áhættan mismunandi mikil, en öll hópamyndun, það er áhætta þar ef það kemur bara enn sem er smitaður inn í hópinn.“
Hefur áhyggjur af boðunum
Hann segist aðspurður hafa áhyggjur af jólaboðunum. „Það eru fjölskylduboð og fjölskylduhópar og vinahópar sem þetta kemur upp í og vinnustaðir og þvíumlíkt og þarna líkar veirunni vel að flakka á milli manna, á slíkum stöðum,“ segir Þórólfur.
Þórólfur segir aðspurður ekki hægt að koma í veg fyrir slík smit.
„En eftir því sem við höfum minna smit í samfélaginu því ólíklegra er að eitthvað svona komi upp. Ef við erum með mikið smit í samfélaginu þá kemur þetta bara upp hvar sem er og inn á vinnustaði og jafnvel staði þar sem eru viðkvæmir hópar, þó að fólk sé að reyna að passa sig, þá getur hún smyglað sér inn þannig að ég held að það sé mikið til unnið að halda þessu í lágmarki,“ sagði Þórólfur.
Skilar tillögum fyrir helgi
Þórólfur segist munu skila tillögum til heilbriðgisráðherra fyrir helgi. Hann setur fyrirvara við það að hlutirnir geti breyst.
„Ég ætla að sjá hvað gerist núna. Ég er kominn með hugmyndir og búinn að viðra þær við mitt fólk. Það er of snemmt að koma með tillögur núna, það getur ýmislegt gerst núna í vikunni,“ segir Þórólfur.