„Áherslan hefur verið sú að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lágmarka skaðann, bæði fyrir húsið og fyrir viðskiptavinina,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, um áhrif COVID-19 á rekstur samkomuhússins.

„Þetta er óhjákvæmilega þungt högg á rekstur Hörpu,“ segir Svanhildur. „Við fórum að finna fyrir áhrifunum strax í byrjun mars. Síðustu tvær vikurnar höfum við unnið mjög þétt með okkar viðskiptavinum og viðburðahöldurum að því að finna lausnir, að finna aðrar dagsetningar. Áherslan hefur verið á að færa viðburði til frekar en að fella þá niður – ef nokkur kostur er.“

Svanhildur segir þessa vinnu ganga mjög vel. Viðburðir í Hörpu séu á milli 1.200 til 1.400 á ári. „Þessir mánuðir núna; mars, apríl og maí voru mjög stórir, sérstaklega ráðstefnumegin. Við höfum líka þungar áhyggjur af tónlistarfólkinu sem nú er að ganga í gegn um gríðarlega erfitt tímabil,“ undirstrikar forstjórinn.

Flókið er að koma öllu heim og saman við þessar aðstæður. „Það eru kannski margir sem  hafa áhuga á sömu dögunum. Þannig að þetta er heilmikil jafnvægislist og þolinmæðisverk fyrir alla,“ segir Svanhildur.

Enn er jarðhæð Hörpu, með miðasölunni og fyrirtækjum þar, haldið opinni. „Það eru enn þá ferðamenn í borginni og fólk að heimsækja húsið og á í viðskiptum við þá sem eru með rekstur á jarðhæðinni,“ segir Svanhildur.

Aðspurð segir Svanhildur neikvæð áhrif af kórónafaraldrinum á veltu Hörpu hlaupa á hundruðum milljóna yfir mánuðina mars, apríl og maí. Ekki sé víst að allt það fé sé tapað út úr rekstrinum. Vonast sé til að úr greiðist þannig að ekki þurfi að leita til eigendanna um fjármagn í reksturinn.

„Við erum búin að stíga á bremsur í öllum kostnaði eins og kostur er og erum algerlega einbeitt í því að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að komast í gegn um þetta án þess að það þurfi að koma til einhver aðstoð en forsendurnar breytast svo hratt og við vitum ekki hver staðan verður eftir viku,“ segir forstjóri Hörpu.