Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur hefur lokað fyrir matarúthlutanir vegna COVID-19.

„Ástæðan fyrir því að við þorðum ekki öðru en að loka er sú að hér er mikil nálægð milli fólks og sjálfboðaliðar okkar eru flestallir fullorðnar konur í áhættuhópi,“ segir Anna H. Pétursdóttir, formaður nefndarinnar.

Að sögn Önnu var ákvörðunin erfið og tekin að vel ígrunduðu máli.

Anna segir mikinn fjölda leita til Mæðrastyrksnefndar í hvert skipti sem matarúthlutun fer þar fram og að skjólstæðingar nefndarinnar séu ekki í þeirri stöðu að geta birgt sig upp af matvælum komi til þess að þeir neyðist til að fara í sóttkví vegna kórónaveirunnar.

„Þetta er bara svakalega viðkvæmt mál og þetta fólk er í mikilli neyð. Við höfum ekki fengið fyrirspurnir um hjálp frá fólki sem er í sóttkví en okkar skjólstæðingar eru reyndar ekki í hópi þeirra sem fara í skíðaferðir í Alpana,“ segir Anna.

Ekki fjallað um fátæka í viðbragðsáætlun

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir hluta af viðbragðs­áætlun almannavarna snúa að því að upplýsa almenning um vörur sem vert sé að eiga komi til þess að fólk sé sett í sóttkví eða komi til samkomubanns. „Þar er listi yfir vörur sem fólk ætti að huga að því að eiga,“ segir hann.

Spurður um þann hóp sem ekki hefur tök á að verða sér úti um þá hluti sem eru á listanum og treystir á matarúthlutanir hjálparsamtaka segir Víðir að ekki sé komið inn á þann hóp í áætluninni.

„Þetta er ekki skrifað beint inn í áætlunina og við þurfum að skoða þetta því að þetta hefur ekki komið inn á borð til mín áður og ég þekki ekki hvernig þessum málum er háttað. En þetta er góð ábending sem ég mun taka upp og skoða hvernig þessu er háttað,“ segir Víðir.

Óráðið með úthlutun hjá Fjölskylduhjálp

Fjölskylduhjálp Íslands úthlutar mat mánaðarlega og segir Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður að ekki sé ljóst hvort af næstu úthlutun verði.

„Ég skrifaði landlækni bréf í gærmorgun [fyrradag] og spurði hvort það væri í lagi að vera með úthlutun í næstu viku og ég hef ekki fengið svar,“ segir hún. Þá segir hún skjólstæðinga sína ekki hafa óskað eftir sérstökum úrræðum við matarúthlutanir vegna sóttkvíar og tekur undir orð Önnu. „Fólkið okkar er ekki mikið í utanlandsferðum,“ segir hún.

„Það yrði bagalegt að vera ekki með úthlutun og myndi koma þessum hópi afar illa. Fjöldi fólks hefur haft samband og spurst fyrir um næstu úthlutun, ég svara með því að ég bíði svars frá Embætti landlæknis,“ segir Ásgerður.

Ekkert samkomubann

Þegar Fréttablaðið fór í prentun hafði Fjölskylduhjálp ekki fengið svar við fyrirspurn sinni en Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segir að samkomubann sé ekki í gildi í landinu en að gott væri ef fólk tæki skynsamlegar ákvarðanir þegar komi að samkomum.

„Það er ekkert samkomubann í gildi hér á landi og það sem við stólum á er að þeir sem eru að skipuleggja viðburði af hvaða toga sem er taki skynsamlega ákvörðun út frá stöðunni, þeirri þekkingu og þeim upplýsingum sem við höfum verið að miðla. Ef fólk ákveður að fresta viðburði út af þessu þá er það gott svo lengi sem sú ákvörðun er tekin að vel ígrunduðu máli,“ segir Kjartan.