Alma D. Möller, landlæknir sagði frá því á upplýsingafundi almannavarna að nú í morgun hafi verið haldinn fundur hjá samráðshópi hjúkrunarheimila.

„Eitt af hornsteinum okkar og markmið hefur verið verndun aldraðra og viðkvæmra hópa. Við viljum sérstaklega hvetja þá sem tilheyra þessum hópum að vera á varðbergi og öllum þeim sem umgangast þá. Nú í morgun var haldinn fundur í samráðshópi hjúkrunarheimila. Leiðbeiningar varðandi hjúkrunarheimili verða uppfærðar og birtar eftir helgi. Það sem var rætt og ákveðið var að reyna eins og hægt er að starfsmenn sem koma erlendis frá komi ekki til vinnu fyrr en að lokinni fjórtán daga sóttkví."

Þá segir hún jafnframt að í þeim tilvikum þar sem staðbundin smit eru í samfélaginu þá gangi hjúkrunarheimili lengra með frekari takmarkanir á heimsóknum.

Stoðþjónusta verður áfram í boði á hjúkrunarheimilum eins og hárgreiðsla og slíkt en þar á að tryggja blöndun ólíkra hópa og að utanaðkomandi beri grímur ef ekki er hægt að tryggja tvo metrana.

Æskilegra að nota einnota grímur

Alma segir að grímur komi aldrei í stað tveggja metra reglunnar og almennra sóttvarna eins og handþvottar. Mikilvægt er að gæta hreinlætis þegar fólk notar grímur.

„Það þarf að þvo eða spritta hendur fyrir og eftir að gríman er sett upp. Það er æskilegast að nota einnota grímur og skipta um ef þær verða rakar eða eru búnir að vera lengur á en í fjóra tíma. Einnig er hægt að nota margnota grímur úr taui en þær þarf að þvo."

Hún hvetur fólk til að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart einkennum kórónuveirunnar og láta taka sýni við minnsta grun um smit. Hún hvetur einnig þá sem hafa fengið boð um að fara í skimun hjá Íslenskri erfðragreiningu að þiggja það.

„Það er mjög mikilvægt að fá betri yfirsýn yfir útbreiðslu veirunnar."

Þurfum að sýna yfirvegun

Hún þakkar að lokum almenningi fyrir að bregðast við af æðruleysi.

„Þessi veira er sjálfri sér samkvæm, hún rís upp þegar slakað er á og það kæmi ekki á óvart þótt við yrðum í því að herða og slaka þar til bóluefni er fram komið," segir Alma D. Möller, landlæknir.

Fréttin hefur verið uppfærð.