Útlit er fyrir að það afbrigði kórónaveirunnar sem Íslendingar eigi nú við í þriðju bylgju faraldursins kunni að vera meira smitandi en þau fyrri.

Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi í dag.

„Hvernig mætti eiginlega annað vera miðað við hvernig við sjáum þróun faraldursins? Smitstuðullinn hefur verði hærri og eins benda upplýsingar erlendis frá í þessa átt og þess vegna þurfum við öll að skerpa okkur í smitvörnum.“

Fleiri á sjúkrahúsi

Á sama tíma hafi hlutfallslega fleiri þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna COVID-19 en í vor.

„Núna eru 5% inniliggjandi en vissulega munar um að þar er fólk sem er í áhættuhópum,“ sagði Alma og vísaði til þeirra sem voru lagðir inn í kjölfar hópsýkingar á öldrunarlækningadeildum á Landakoti. „Sem betur fer eru hlutfallslega færri sem hafa þurft meðferð á gjörgæslu.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í Kastljósi RÚV í gær að vísbendingar væru um að þessi tiltekna stökkbreyting, sem kennd hefur verið við Frakkland, sé meira smitandi en önnur afbrigði sem hafi borist til landsins.

Þó sagði hann að ekki hafi enn fengist staðfesting á að svo sé raunin.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði jafnframt í fyrirspurnartíma á upplýsingafundinum að sú kenning að veiran smitist nú með auðveldari hætti og verði þannig vægari fyrir vikið séu einungis getgátur á þessu stigi.

Fréttin hefur verið uppfærð.