Segja má að COVID-19 hafi bjargað Hegningarhúsinu, er álit múraranna Olgeirs Gestssonar og Gunnlaugs Ketilssonar frá Aðalmúr sem nú vinna að endurbótum á gamla fangelsinu á Skólavörðustíg.

„Húsið míglak og löngu kominn tími á að gera eitthvað,“ segir Olgeir. Af vef Stjórnarráðsins segir hann að megi ráða að verkefnið eigi að auka vinnu á tímum COVID-19.

„Það var því lán í óláni að COVID-ið kom því miðað við mína reynslu af ríkinu er ekkert gert fyrr en í óefni er komið,“ útskýrir Olgeir.

Þeir Gunnlaugur og Olgeir eru báðir af múraraættum. Langalangafi Gunnlaugs vann sem snikkari við byggingu Alþingishússins á nítjándu öld og langafi hans varð múrari árið 1904. Og afi Olgeirs vann við byggingu Þjóðleikhússins.

Gunnlaugur Ketilsson og Olgeir Gestsson Mynd Garðar.jpg

Nú vinna þeir Gunnlaugur og Olgeir að því að þétta steinhlaðinn sökkulinn undir Hegningarhúsinu með steypu sem síðan verður varin með sérstöku frostþolnu efni.

Meðal annarra verka sem múrararnir þurfa að vinna er viðgerð á fúgum víða í grjóthleðslu hússins. Vandinn er að finna rétta efnið í fúguna svo upprunalega útlitið haldist.

„Ég gerði blöndu sem arkitektinn var alveg sáttur við,“ segir Olgeir sem í blönduna notaði tvær gerðir af sementi, sand úr byggingavöruverslun og svo sérvalinn sjávarsand.

Olgeir segir áhugavert að takast á við verkefni sem sé ekki hefðbundið. „Þetta er eitthvað sem er ekki kennt í Iðnskólanum og það er gaman að fá að taka þátt í einhverju sem er algjörlega út úr kassanum,“ útskýrir hann.

Hegningarhúsið Skólavörðustíg þak Mynd Garðar.jpg

Hegningarhúsið sem hlaðið er úr íslensku grjóti var tekið í notkun árið 1871. Undir lokin þjónaði byggingin sem móttökufangelsi þar til því var lokað 1. júní 2016. Olgeir hefur kynnt sér sögu hússins.

„Það var forvitni mín um fortíðina sem ýtti mér út í það. Ég vildi fá að vita hvernig þeir gerðu þetta í upphafi,“ segir Olgeir sem kveður heimildir um það því miður ekki vera góðar. „Verklýsing var ekki til – það var bara sagt: reistu hús og þá mættu einhverjir berserkir og reistu hús.“

Ekki liggur fyrir hvaða starfsemi verði í framtíðinni í Hegningarhúsinu. Olgeir segist vilja sjá þar safn eða minnisvarða um liðna tíma og að húsinu verði komið í upprunalegt horf.

„Fólk fengi að ganga um og skoða klefana og dómsalinn uppi. Úti í fangelsisgarðinum væri lítil kaffitería þar sem fólk gæti sest niður og kynnt sér betur sögu hússins,“ lýsir Olgeir Gestsson.