Rannsóknarteymi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, hefur síðastliðnar vikur dvalið í kínversku borginni Wuhan til að rannsaka upptök COVID-19 faraldursins en blaðamannafundur á vegum WHO fer nú fram í Kína.
Liang Wannian, yfirmaður COVID-19 ráðs heilbrigðisnefndar Kína, var meðal þeirra sem tók til máls á fundinum. Talið er að veiran hafi borist úr dýrum í menn en ekki er enn ljóst hvaða dýr er um að ræða. Verið væri að rannsaka ýmis dýr í von um að finna hvernig veiran smitaðist.
Meðal dýra sem er verið að skoða eru leðurblökur og hreisturdýr (e. pangolin), en dýr eins og kettir og minkar, sem eru næmir fyrir smiti, koma einnig til greina. Teymið hefur tekið sýni frá dvalarstöðum ýmissa dýra á svæðinu en veiran hefur ekki enn fundist í þeim sýnum.
Upptökin óljós
Þá greindi Liang frá því að það væri möguleiki að Sars-Cov-2 veiran hafi komið upp annars staðar og fyrr en í Wuhan í lok desember 2019. Slíkt hafi þó ekki verið tilkynnt og ekki sé vitað til þess að veiran hafi verið útbreidd áður en hennar var vart í Wuhan. Verið er að rannsaka þá kenningu frekar.
Teymi WHO hefur rannsakað ýmsar stofnanir og staði í Wuhan frá því í janúar, þar á meðal Huanan fiskmarkaðinn en talið er að hægt sé að rekja fyrstu smitin þangað. Að sögn Liang er það þó ekki vitað hvernig veiran komst þangað en veiran kom einnig upp á öðrum mörkuðum.
Talið er að endanleg niðurstaða um upptök veirunnar og hvernig hún barst í menn muni ekki liggja fyrir fyrr strax og gæti jafnvel tekið nokkur ár.
Hægt er að horfa á blaðamannafund teymisins hér fyrir neðan.
LIVE from Wuhan : Media briefing on #COVID19 origin mission https://t.co/WGpRGsd8vE
— World Health Organization (WHO) (@WHO) February 9, 2021