Kórónaveiran sem veldur COVID-19 virðist aftur hafa náð fótfestu í Kína en takmarkanir hafa verið settar á í norðausturhluta Kína eftir að smit komu upp í nokkrum héruðum. Yfirvöld hafa kallað eftir því að íbúar ferðist ekki, skólum verður lokað fyrr, og mun víðtækt skimunarátak fara af stað.
Að því er kemur fram í frétt AP fréttastofunnar greindust alls 118 ný tilfelli í gær og hefur því verið ákveðið að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar áður en kínverska nýárinu verður fagnað þar í landi síðar í febrúar.
China is dealing with coronavirus outbreaks across its frigid northeast, prompting additional lockdowns and travel bans ahead of next month’s Lunar New Year holiday. https://t.co/yPqX1ZMCmG
— The Associated Press (@AP) January 19, 2021
Kína vakti athygli á síðasta ári þegar þeir virtust ná góðum tökum á faraldrinum tiltölulega snemma en veiran kom fyrst upp í kínversku borginni Wuhan í Hubei-héraði í lok desember. Teymi á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, mun næstu vikur rannsaka upptök faraldursins í Wuhan.
Verulega fá smit
Samkvæmt upplýsingum Johns Hopkins háskólans hafa rúmlega 98 þúsund tilfelli greinst í Kína frá því að faraldurinn hófst og tæplega 4,8 þúsund látist eftir að hafa smitast. Tilfellin eru því verulega fá miðað við fólksfjölda.
Á heimsvísu hafa hátt í 96 milljón tilfelli smits greinst og rúmlega tvær milljónir manna látist eftir að hafa smitast. Bólusetningar gegn veirunni eru nú hafnar víða um heim en engu að síður er faraldurinn víða í mikilli uppsveiflu.
Heimurinn á barmi hörmulegra mistaka
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, greindi frá því í gær að heimurinn væri á barmi „hörmulegra siðferðislegra mistaka,“ vegna dreifingu bóluefnis þar sem heilbrigðari einstaklingar frá ríkari löndum fá bólusetningu á undan berskjölduðum einstaklingum frá fátækari löndum.
Þannig hafi 49 ríkari ríki gefið rúmlega 39 milljón skammta af bóluefninu á meðan fátækari ríki hafi aðeins fengið 25 skammta. „Fátækari lönd munu gjalda fyrir þessi mistök með lífum og lífsviðurværi,“ sagði Ghebreyesus á fundi WHO og bætti við að málið myndi aðeins framlengja faraldurinn. ‚
Hann kallaði eftir því að öll ríki heims skuldbindi sig til að taka þátt í COVAX-verkefninu sem áætlað er að hefjist í næsta mánuði en fleiri en 180 ríki hafa þegar lýst því yfir að þau muni taka þátt. Þannig munu 92 fátækari lönd fá aðstoð við kaup á bóluefnum.
"The world is on the brink of catastrophic moral failure and the price will be paid with lives and livelihoods in the world's poorest countries"
— BBC News (World) (@BBCWorld) January 18, 2021
Tedros Adhanom Ghebreyesus, World Health Organization, accuses richer nations of vaccine hoarding https://t.co/L6ywehWt85 pic.twitter.com/52uULQ2aEx