Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild, segir að Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, hafi ekki brotið neinar þeirra sóttvarnarreglna sem í gildi eru.
Batakveðjum rignir yfir lögregluþjóninn en líkt og fram hefur komið jafnar hann sig nú af COVID. Víðir greindi sjálfur frá frekari upplýsingum um eigið smit í gærkvöldi á samfélagsmiðlum en einhverjir hafa furðað sig á fjölda gesta á heimili hans í kjölfarið.

Tólf voru útsettir fyrir smiti á heimili lögregluþjónsins. Helgina áður en kona Víðis greindist hafði vinafólk hjónanna utan af landi gist hjá þeim og dætur þeirra kíkt í kaffi. Þá komu vinkona þeirra hjóna, börn, tengdadóttir og barnabarn og vinahjón í heimsókn síðar sama kvöld.
Allt í allt, yfir tíu manns, en fimm úr þeim hópi hafa greinst með veiruna. Sagðist Víðir í gær telja sennilega smitleið hafa verið vatnskönnu, kaffibolla og glas.
Í samtali við Ríkisútvarpið segist Rögnvaldur ekki telja að kollegi sinn hafi brotið sóttvarnarreglur. „Ég held að hann hafi ekki verið að brjóta neinar reglur, af því sem er í gildi, ég held að það sé alveg ljóst og ég get ekki ímyndað mér annað en að hann sé ekki glaður með þessa niðurstöðu.“
Hann segir þó eðlilegt að gestagangurinn á heimili Víðis komi fólki á óvart. „Algjörlega, en við erum náttúrulega öll mannleg og mér finnst Víðir gera bara mjög vel grein fyrir þessu í þessum Facebook pistli. Það er alveg sama hversu varlega maður fer, sumt er bara ekki í manns eigin höndum. Mín fjölskylda lenti í þessu líka að veikjast þó að við værum að fara gríðarlega varlega. Þetta er bara lúmsk veira og erfið.“