Veikindi eru talin lík­legasta á­stæða hryðju­verka­á­rásarinnar í Kongs­berg fyrr í vikunni þegar fimm létust í skot­á­rás og þrjú voru særð.

Norska lög­reglan skoðar nú nokkrar á­stæður sem gætu verið fyrir á­rásinni en á vef Aften­posten kemur fram að veikindi eru talin lík­legasta or­sökin. Aðrar á­stæður sem nefndar eru reiði, hefnd, ji­had eða heilagt stríð múslima eða að á­rásar­minnum hafi verið ögrað.

Lögð hafa verið blóm og kerti á vettvang árásarinnar.
Fréttablaðið/EPA

Á­rásar­maðurinn, Espen Ander­sen Bråthen, var í gær fluttur á heil­brigðis­stofnun í kjöl­far geð­heil­brigðis­mats sem að hann gekkst undir í kjöl­far þess að hafa myrt fimm með boga og örvum á mið­viku­daginn, 13. októ­ber. Verjandi Bråthen er sagður sam­mála því að veikindi séu lík­legast á­stæðan.

Mikil um­ræða hefur verið um hryðju­verka­á­rásina undan­farna daga í Noregi og þá sér­stak­lega mögu­leg tengsl hans við íslamska trú. Á vef NRK er í dag við­tal við norskan mann sem að­hyllist íslams­trú sem segir að það hafi verið ó­á­byrgt af lög­reglu að nefna trúar­brögð strax og að það hafi sært. Hann telur að það hafi ekki verið nauð­syn­legt að nefna það og segir að auk þess sé ekki vitað hvort það sé satt eða hvort það sé eitt­hvað sem að Bråthen hélt bara fram sjálfur.

Lög­reglan hefur svarað þessari gagn­rýni á þann hátt að það hafi snemma við rann­sókn komið í ljós tengsl við íslamska öfga­trú og að þegar fjöl­miðlar hafi spurt um það hafi lög­reglan svarað. Lög­reglan segir að það sé að­eins ein á­stæða sem vikið er að í rann­sókninni, en eins og fram kemur að ofan, telur lög­reglan nokkrar mögu­legar á­stæður fyrir á­rásinni og er að rann­saka þær allar.