Um miðjan júní fékk Einar Óli Ægisson starf hjá Akraneskaupstað sem fólst í því að rífa niður hluta af Grundaskóla á Akranesi eftir að úttekt verkfræðistofunnar Verkís á húsnæði skólans í mars leiddi í ljós að rykagnir frá glerull yllu óþægindum sem nemendur og starfsfólk höfðu sagt frá. Þá voru einnig rakaskemmdir í skólanum.

Einar Óli segir að það hafi tekið Akranesbæ um einn og hálfan mánuð að útvega starfsmönnum viðeigandi grímur.

Skömmu eftir að hann hóf störf fór Einar að verða andstuttur og fékk útbrot á húð en það var læknir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands sem tengdi veikindi Einars við störf hans.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu, segir að það þurfi sérstakar P3-grímur til að verja lungun fyrir rykögnum og myglu, sérstaklega í niðurrifi.

„Ég er beðinn um að vinna þarna og fer í atvinnuviðtal. Þar er sagt við okkur að við fáum alla kennslu og útbúnað sem þarf til að framkvæma starfið. Þegar ég byrja að vinna hins vegar við að rífa niður veggi og loft líður langur tími þangað til við fáum grímur. Þegar við fáum þær þurfum við síðan að biðja um betri grímur þar sem við fengum upphaflega bara svona Covid-grímur,“ segir Einar.

„Það var ekki talað við okkur um að það væru sveppir eða eiturefni í húsinu heldur sagt við okkur að það væru „glerullaragnir“ þarna. Svo þegar ég er byrjaður að verða veikur, nokkrum dögum áður en ég fer til læknis, finn ég frétt á netinu sem talar um að það séu eitursveppir þarna sem eru hættulegir heilsu fólks. Það var aldrei búið að nefna neitt slíkt við okkur,“ segir Einar. „Við fengum líka engan búnað sem gaf til kynna að það væru einhver eiturefni þarna inni.“

Einar glímdi við þrálát veikindi og slappleika í sumar ásamt því að fá útbrot á líkamann sem leiddu til þess að hann ákvað að leita til læknis.

„Það fóru að birtast hvítir blettir á húðinni sem ég tengdi auðvitað ekki við vinnuna. Það tók langan tíma að fá tíma hjá lækni vegna Covid-19 þannig að ég beið í einn og hálfan mánuð. Þegar ég kemst loksins til læknis var þetta búið að breiðast út um allan líkama. Þá tekur læknirinn eftir þessu og spyr hvar ég sé að vinna og tengir strax að þetta sé tengt sveppaeitrunum,“ segir Einar.

„Ég er venjulega fílhraustur en nú er ég alltaf móður. Ég á erfitt með að labba upp tröppur. Ég þurfti að labba upp á sjúkrahús áðan og til baka og ég er bara þreyttur þegar ég kem heim,“ segir Einar.

Sylgja Dögg heldur reglulega námskeið um hvaða aðbúnað þurfi að hafa á vinnustöðum í svona aðstæðum.

„Í niðurrifi á byggingum þegar það er verið að róta upp gömlum byggingarefnum sem hafa ekki verið prófuð áður, þá veistu í raun ekkert hverju þú ert að róta í. Þá á maður alltaf að vera með grímu. Eins og ég segi á námskeiðunum þá þarftu að vera með forsíu fyrir lungun. Þú vilt ekki að lungun séu aðalsían, þú getur ekki skipt um þau en þú getur skipt um grímu. Gríman stöðvar stærstu agnirnar en þessar smáu fara lengst niður í lungun og þess vegna þarf að vera með sérstaklega góðar grímur við niðurrif,“ segir Sylgja.

Hún segir málið ekki einsdæmi.„Ég hef komið á verkstaði, ótengt þessu máli, þar sem ekki er búið að prófa byggingarefnin, þar sem er ekki búið að ganga úr skugga um hvað er í efnunum og oft er búið að róta í þeim áður en einhver áttar sig á því að þetta er ekki alveg í lagi,“ segir Sylgja og bætir við að það þurfi að vera með P3-grímur við niðurrif á byggingum með rakaskemmdum. „Rakaskemmdir er náttúrulega bara mygla,“ segir Sylgja.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, segir að bænum hafi engar tilkynningar borist um skort á hlífðarbúnaði starfsmanna í niðurrifi á skólanum. Samkvæmt yfirmanni verksins hafi starfsmenn fengið allan hlífðarbúnað og grímur.

„Það hefur ekkert komið til okkar hvað þetta varðar,“ segir Sævar og segir bæinn líta svona mál alvarlegum augum. „Það skiptir mjög miklu máli að það sé farið vel með heilsu fólks, það skiptir í raun öllu máli,“ segir Sævar.