„Fyrir tæpu ári drap læknir mig næstum því vegna þess að ég var „of snyrti­leg“.“ Á þessum orðum byrjar Twitter-þráður þar sem Lára Guð­rún Jóhönnu­dóttir lýsir bar­áttu sinni við að fá greiningu á veikindum sínum. Til­efnið var frétt Frétta­blaðsins um að manni hafi verið synjuð um­sókn um ör­orku­líf­eyri vegna of góðrar um­hirðu.

Lára er með sykur­sýki 1 og meðan hún leitaði skýringa á veikindunum sínum missti hún fjór­tán kíló á nokkrum mánuðum og stóran hluta af hári sínu. Hún var sí­fellt þyrst, með krampa í fótunum, sár sem ekki gréru, sveppa­sýkingar, skerta hug­ræna getu auk þess sem tennur voru byrjaðar að losna.

Læknar gáfu ein­kennum hennar ekki mikinn gaum og sögðu henni að vanda­málið væri bara streita. Einn læknir hundsaði jafn­vel hættu­lega lág kalíum gildi í blóði og reyndi ekki að komast að rót vandans. Hann gaf í skyn að veikindi hennar væru sjálf­sprottin, að hún væri að gera sér þetta sjálf, hvort heldur sem væri með því að mis­nota á­fengi eða átröskun.

Lára segir læknana ekki hafa tekið veikindum hennar al­var­lega þar sem hún var snyrti­leg til fara, vel máli farin og bar veikindi sín betur en mælingar í blóði sýndu fram á. „Leit ekki út fyrir að vera deyjandi. En ör­væntingar­full í augunum,“ segir hún.

Að lokum hafi hjúkrunar­fræðingur bent Láru á að láta mæla blóð­sykurinn sinn en þá var hún loks greind með sykur­sýki af tegund 1, enda öll ein­kenni skóla­bókar­dæmi um sjúk­dóminn. Hefði það ekki tekist hefðu veikindin að öllum líkindum dregið hana til dauða.

Lára segir tíma­bært að hætta að dæma fólk út frá út­liti. Hún bendir á að mörgum sem glíma við lang­vinn veikindi finnist gott að klæða sig upp þegar það á erindi eitt­hvað, til dæmis tíma hjá lækni.

„Þegar ég starfaði sem heil­brigðis­starfs­maður við blóð­tökur á Land­spítalanum tók ég sér­stak­lega eftir því hversu vel til haft til dæmis aldraðir voru þegar þeir komu í reglu­bundið eftir­lit, nánast upp­á­klætt eins og það væri að fara beint í leik­hús eftir blóð­prufu,“ segir Lára í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það skiptir ekki máli hvað tilefnið er, það að klæða sig upp fyrir læknisvið­tal þýðir ekki að hinir ýmsu kvillar eða sjúk­dómar breytist í tál­sýn eins og dregið sé ský fyrir sólu," segir hún og bætir við að læknis­menntaðir ein­staklingar sem beri á­byrgð á lífi fólks þurfi að setja upp greiningar­gler­augun, skilja for­dómana eftir heima og horfa á heildar­myndina.

Lára þakkar heimilis­lækni sínum þó sér­stak­lega fyrir og segir að hún myndi vaða eld og brenni­stein fyrir sig, hún hafi ein­fald­lega ekki verið við vinnu þegar ó­sköpin gengu á.