Magnús H. Jónasson
Föstudagur 27. nóvember 2020
10.33 GMT

Staðreyndin um kosningaósigur Donalds Trump virðist loksins vera að ná fótfestu innan veggja Hvíta hússins, þrátt fyrir að fráfarandi forseti Bandaríkjanna hafi sagt opinberlega að hann muni aldrei viðurkenna ósigur. Hann tilkynnti hins vegar í dag að hann muni yfirgefa Hvíta húsið ef kjörmennirnir kjósa Joe Biden í kosningunni sem fer fram þann 14.desember

Bandaríska alríkisstofnunin sem annast innsetningu nýs Bandaríkjaforseta (GSA) hefur tilkynnt Joe Biden að formleg valdaskipti geti hafist. Þetta er ekki einungis formsatriði heldur tryggir þetta Biden fjármagn til að borga starfsfólki til að aðstoða hann við valdaskiptin, öryggiseftirlit með honum eykst og þá fær hann einnig reglulega upplýsingafundi um trúnaðarmál ríkisins.

Síðustu dagar vestanhafs hafa verið áhugaverðir svo vægt sé til orða tekið en hafa þarf í huga að bæði fjölmiðlar og pólitískir ráðgjafar beggja flokka voru vel undirbúnir undir þessa atburðarás, ef munur á fylgi frambjóðenda yrði naumur.

Síðast þegar niðurstaðan var ekki ljós á kosningakvöldinu sjálfu áttust George W. Bush og Al Gore við í forsetakosningunum árið 2000. Endurtalning fór fram í Flórída áður en Hæstiréttur Bandaríkjanna stöðvaði hana og Bush varð 43. forseti Bandaríkjanna. Það hefur lengi vel verið litið svo á að stærstu mistök Gore á kosningakvöldinu hafi verið að hringja í Bush, játa sig sigraðan og síðar þurfa að draga þau orð til baka.

Stuðningsmenn Bush að mótmæla endurtalningunni árið 2000. Einn þeirra heldur uppi handklæði þar sem er leikið með nöfn Al Gore og varaforsetaefni hans Joe Lieberman, en Gore var talinn vera tapsár því hann var búinn að viðurkenna ósigur sinn.
Ljósmynd/AFP

James Baker, fyrrverandi fjármála- og utanríkisráðherra Reagan-stjórnarinnar og síðar starfsmannastjóri George H.W. Bush, fékk fyrsta símtal Bush-fjölskyldunnar í kjölfar kosninganna árið 2000. Baker sagði frá fyrsta degi við Bush-fjölskylduna að kosningasigurinn myndi vinnast í Hæstarétti en ekki með endurtalningu.

James Baker á blaðamannafundi 15. nóvember árið 2000 eftir að Hæstiréttur Flórida neitaði að stöðva endurtalninguna í ríkinu. Hæstiréttur Bandaríkjanna ákvað síðar að endurtalningin væri andstæð stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Ljósmynd/AFP

Svo virðist sem kosningateymi Trumps hafi ætlað að fylgja leikkerfi Bakers og reyna hafa sigur í dómsal fremur en á kjörstað. Þetta varð óþægilega ljóst þegar Trump hélt blaðamannafund á kosningakvöldinu og lýsti yfir sigri. Hann sagði þar orðrétt að hann ætlaði að láta reyna á atkvæðatalninguna fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna en á þeim tíma var talning atkvæða enn í fullum gangi.

Fjölmiðlar vestanhafs staðfestu sigur Bidens nokkrum dögum síðar, þegar það var orðið ómögulegt fyrir Trump að vinna. Trump og fjölmargir Repúblikanar hafa hins vegar neitað þeirri staðreynd.

Margir hafa furðað sig á því hvers vegna svo margir þingmenn úr röðum Repúblikana hafa neitað að viðurkenna niðurstöðuna en ekki má gleyma að þeir eru líklega flestir að hugsa um eigið endurkjör. Að ná endurkjöri er stærsta forgangsmál fjölmargra þingmanna í Bandaríkjunum og það væri því ekki klókt að ergja kjósendur nú sem leitað verður til eftir tvö, fjögur eða sex ár.

Donald Trump á blaðamannafundi sínum á kosningakvöldinu þegar hann lýsti yfir sigri og hét því að láta reyna á kosningarnar fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna.
Ljósmynd/AFP

Óeðlilegur þrýstingur í Georgíu

Síðastliðna daga hefur Trump-teymið barist með kjafti og klóm til að fá niðurstöðu kosninganna hnekkt. Í Michigan var óskað eftir því að staðfesting á niðurstöðu kosninganna yrði frestað um tvær vikur. Í Nevada héldu lögmenn Trumps því fram að skoðunarmenn þeirra fengju ekki að vera nægilega nálægt talningunni og kosningin því ógild. Í Pennsylvaníu var það sama upp á teningnum. Þá var óskað eftir endurtalningu í Maricopa-sýslu í Arizona.

Innanríkisráðherra Georgíu, Repúblikaninn Brad Raffensperger, sem er jafnframt æðsti yfirmaður kosningamála í ríkinu, sagði opinberlega í síðustu viku að samflokksmenn hans hefðu hvatt hann til að telja ekki lögleg atkvæði. Lindsey Graham, þingmaður Suður Karólínu, var meðal þeirra sem hringdi í Raffensperger, í von um að þrýsta á hann til að stöðva talningu atkvæða.

Það var svo mjótt á mununum milli Bidens og Trumps í Georgíu að það var ákveðið að fara í endurtalningu. Kosningateymi Trumps leit á þetta sem mikinn sigur en síðasta föstudag var ljóst að eftir að atkvæðin höfðu verið talin aftur að Biden vann ríkið með 12,670 atkvæðum. Atkvæðafjöldi Trumps jókst um nokkur þúsund atkvæði í endurtalningu en það dugði ekki til.

Þrátt fyrir þrýsting frá valdamiklum þingmönnum og Trump sjálfum gaf Raffensperger það út á föstudaginn að Biden hefði haft sigur í Georgíu.

Starfsmenn kjörstjórnar í Georgíu endurtelja atkvæði 16. nóvember síðastliðinn.
Ljósmynd/AFP

Garðyrkjufyrirtæki, klámbókabúð og líkbrennsla

Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar og núverandi lögmaður Trumps, hélt afar áhugaverðan blaðamannafund fyrir framan garðyrkjufyrirtækið Four Seasons Total Landscaping í Philadelphiu í Pennsylvaníu í byrjun mánaðarins. Giuliani stóð þar við hliðina á klámbókabúð og með líkbrennslu beint á móti sér. Líklegast átti blaðamannafundurinn að fara fram á Four Seasons hótelinu í Philadelphiu.

Guiliani jós engu að síður úr skálum reiði sinnar og hét því þar að hefja málarekstur gegn „Demókrata-vélinni“ sem stýrði Philadelphiu. Hann dró einnig fram þrjá eftirlitsmenn sem vitnuðu um að þeir hefðu ekki fengið að fylgjast með talningu atkvæða eins og þeir töldu eðlilegt.

Í kjölfarið var kærum skilað inn á nær öllum dómstigum Pennsylvaníu. Giuliani, sem öðlaðist fyrst frægð sem saksóknari í New York-borg, mætti sjálfur í dómsal til að flytja eitt málið og reyndi hann að sannfæra dómara um að víðtækt kosningasvindl hefði átt sér stað í ríkinu.

Dómarinn var vægast sagt ekki ánægður með málflutning Giuliani og sagði hann ekki byggðan á neinum sönnunargögnum og á veikum lagarökum.

„Þjóðin, lögin og stofnanir okkar krefjast meira,“ sagði dómarinn við Giuliani.

Tom Wolf, ríkisstjóri Pennsylvaníu, staðfesti Biden sem sigurvegara á þriðjudaginn og þar með var öll von Trump úti um að hnekkja niðurstöðunni í ríkinu.

Rudy Giuliani, lögmaður Trumps, hélt skrautlega blaðamannafund fyrir framan garðyrkjufyrirtæki í Philadelphíu. Ljósmynd/AFP

Michigan og mýtan um kosningasvindl

Barátta Trumps í Michigan beindist í fyrstu að kjörstjórn í Wayne-sýslu í Michigan, þar sem borgin Detroit er meðal annars.

Trump og fulltrúar Repúblikanaflokksins þrýstu á kjörstjórn Wayne-sýslu og síðar kjörstjórn ríkisins um að fresta úrskurði um niðurstöðu kosninganna um tvær vikur.

Seint á mánudagskvöldið staðfesti kjörstjörn Michigan hins vegar Biden sem sigurvegara en hann vann með 155.000 atkvæða mun. Þrír af fjórum meðlimum í kjörstjórn ríkisins kusu með því að staðfesta niðurstöðuna, tveir Demókratar og einn Repúblikani á meðan einn Repúblikani sat hjá.

Trump neitar hins vegar enn að viðurkenna ósigur og heldur áfram yfirlýsingum um víðtækt kosningasvindl.

Ásakanir um svindl í forsetakosningum vestra eru ekki nýlunda. Árið 1960 héldu Repúblikanar því fram að fyrrverandi borgarstjóri Chicago, Richard Daley, hefði fyllt nokkra kjörkassa af atkvæðum fyrir John F. Kennedy sem hefði tryggt honum sigur gegn Nixon í Illinois. Það munaði einungis 100.000 atkvæðum á Kennedy og Nixon og því skiptu 27 kjörmenn Illinois ríkis miklu máli. Sérstakur saksóknari var fenginn að málinu og kærði hann 650 starfsmenn í kjörstjórnum en þeir voru allir sýknaðir. Dómarinn sem sýknaði þá var að mati Repúblikana hliðhollur Daley borgarstjóra sem réð lofum og lögum í borginni á þeim tíma. Sérstök rannsókn frá árinu 1985 sýndi síðar fram á að það var lítið til í þessum ásökunum Repúblikana um víðtækt kosningasvindl.

Richard J. Daley, fyrrverandi borgarstjóri Chicago (fjórði frá hægri) með John F. Kennedy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu árið 1962. Daley var sakaður um að hafa svindlað til að tryggja Kennedy sigurinn.
Ljósmynd/Wikimedia Commons

Valdaskipti síðustu ára

Sú venja hefur myndast að fráfarandi forseti bjóði tilvonandi forseta í heimsókn í Hvíta húsið skömmu eftir að niðurstaða kosninganna liggur fyrir. Þetta hefur verið gert þrátt fyrir harða kosningabaráttu og þó að mjótt hafi verið á mununum.

George H.W. Bush var síðasti forsetinn til að tapa endurkjöri í Bandaríkjunum og þá fyrir Bill Clinton í kosningunum árið 1992. Pólitískir ráðgjafar Clintons höfðu verið allt annað en kurteisir í samskiptum við Bush en engu að síður fóru valdaskiptin vel fram.

Þegar Ronald Reagan lét af embætti árið 1989 skildi hann eftir handskrifað bréf til Bush eldri í Hvíta húsinu. Síðan þá hafa allir fráfarandi forsetar gert slíkt hið sama. Þegar Bush var ekki endurkjörinn árið 1992, hvatti hann Bill Clinton til dáða í sínu bréfi og hefur Clinton nefnt það á seinni árum að bréfið sýni vel hvern mann Bush hefur að geyma. Í lokaorðum bréfsins ritar Bush „ég óska þér og fjölskyldu þinni góðs gengis. Velgengni þín er velgengni þjóðarinnar.“

Það verður áhugavert að vita hvort handskrifað bréf frá Trump bíði Bidens í Hvíta húsinu þegar hann tekur við embætti.

Í sjálfsævisögu sinni, Believer: My Forty Years in Politics, skrifar pólitíski ráðgjafinn David Axelrod um hversu skrýtið það var að hitta George W. Bush eftir kosningar 2008. Axelrod sem annaðist nær allan pólitískan boðskap Obama, var undrandi á því jákvæða viðhorfi sem hann og Obama mættu frá Bush-fjölskyldunni við valdaskiptin.

Jenna og Laura Bush sýna dætrum Obama Hvíta húsið við valdaskiptin árið 2008. Ráðgjafi Obama var hissa á því jákvæða viðhorfi sem þeir mættu frá Bush-fjölskyldunni eftir kosningarnar. Ljósmynd/Instagram Jenna Bush.

Það er þó rétt að nefna að bæði hann og Obama höfðu það á tilfinningunni að allir í ríkisstjórn Bush vildu tryggja að valdaskiptin færu vel fram þar sem yfirvofandi efnahagskreppa gæti gjöreyðilagt orðspor þeirra og því skipti miklu máli að nýr forseti yrði tilbúinn að grípa til aðgerða sem fyrst.

Nú er ekki yfirvofandi efnahagskreppa í Bandaríkjunum heldur er hún í fullum gangi, þá er einnig heimsfaraldur og því hefur aldrei verið mikilvægara að valdaskipti fari fram hratt og örugglega. Velgengni Bidens er hins vegar ekki velgengni þjóðarinnar í augum Trumps.

Í forsetakosningunum árið 2016 játaði Hillary Clinton vissulega ósigur sinn í símtali við Trump en það muna flestir eftir því að hún fór ekki fram í pontu og þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir atkvæðin og þrotlausa vinnu á kosningakvöldinu sjálfu. Í bók sinni What Happened nefnir Clinton varla hvað gekk á meðal ráðgjafa hennar á kosningakvöldinu eða hvort það hafi verið rætt um möguleikann á að láta reyna á niðurstöðuna fyrir dómstólum. Daginn eftir var hins vegar ljóst að það var ekki á döfinni er hún viðurkenndi ósigur sinn opinberlega.

John Podesta, sem vann í kosningastjórn Hillary Clintons, að tilkynna stuðningsmönnum hennar að hún muni ekki koma fram og halda ræðu á kosningakvöldinu árið 2016.
Ljósmynd/AFP

Það er hins vegar ljóst að hugmyndafræðileg borgarastyrjöld Bandaríkjamanna, sem er verið að heyja á torgum og samfélagsmiðlum um þessar mundir, muni halda áfram. Þrátt fyrir að Trump hafi lotið í lægra haldi bjuggust Demókratar við stórsigri en enduðu á að rétt merja sögulega óvinsælan forseta á einhverjum mestu umrótatímum síðustu ára.

Demókratar töpuðu einnig sætum í fulltrúadeildinni og náðu ekki meirihluta í öldungadeildinni eins og skoðanakannanir gáfu þeim vonir um. Valdaskipti eru hafin og hefur Biden sagt að hann vonist til að sameina þjóðina að nýju, það gæti hins vegar orðið erfitt verkefni á meðal þjóðin er jafn klofin og raun ber vitni.

Athugasemdir