Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS) furðar sig á breytingu á aðferðarfræði við útreikningum á veiðiþol rjúpnastofnsins og skorar á ráðherra og stjórnvöld að hefja vinnu við stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir veiðistofna, sér í lagi rjúpnastofninn. Segir í tilkynningu SKOTVÍS, sem birtist á Facebook, að breytt aðferðarfræði sé ekki til þess fallin að auka tiltrú á ferlið í kringum veiðistjórnun.

Náttúrufræðistofnun Íslands birti í dag tillögur sínar um rjúpnaveiði fyrir árið 2018, og er það byggt á veiðiþoli stofnsins sem Náttúrufræðistofnun reiknar út. Ráðlögð rjúpnaveiði er í ár 67 þúsund fuglar, 10 þúsund fleiri fuglar en í fyrra.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að viðkoma rjúpunnar á suðvesturhorninu væri ein sú slakasta sem mælst hefur hér á landi, og er það mikilli rigningu fyrri part sumars sem kennt er um.

Stofninn mun stærri ef aðferðarfræði væri óbreytt

Í tilkynningu SKOTVÍS segir að þrátt fyrir að stofninn sé í hæsta lagi frá árinu 1986, og að fyrir liggi að fjöldi veiðidaga skipti ekki máli hvað varðar veiðar eða afföll, hafi Náttúrufræðistofnun ákveðið að fjölga ekki veiðidögum. Síðustu ár hafa veiðidagar fyrir rjúpu verið 12, og hafa þeir skipst yfir fjórar helgar.

Náttúrufræðistofnun hefur eins og áður segir metið það svo að afföll hafi verið sérstaklega slæm á suðvesturhorni landsins. Segir í tilkynningu SKOTVÍS að það veki athygli að nú sé breytt til við útreikninga á veiðiþoli og miðast við gögn frá Suðvesturlandi, í stað Norðausturlands. „Hingað til hefur viðkoman frá NA-landi verið notuð enda gagnasafnið þaðan mun stærra og áreiðanlegra. Ef afföllin af NA landi hefðu verið notuð þá væri veiðiþolið 89.000 fuglar. SKOTVÍS furðar sig á þessari breytingu á aðferðafræði frá fyrri útreikningum sem er ekki til þess fallinn að auka tiltrú á ferlið í kring um veiðistjórnun,“ segir í tilkynningunni.

Þá hefur jafnframt veiðimenn í hinum ýmsu Facebook-hópum lýst furðu sinni á ákvörðun Náttúrufræðistofnunar, m.a. inni á hópnum Skotveiðispjallið.