Jöfnunarsjóður hefur það hlutverk að jafna fjárhagslega stöðu sveitarfélaga svo þau geti sinnt hlutverki sínu. Þannig er komið til móts við sveitarfélög á svæðum þar sem erfiðara er að afla tekna til að standa undir þjónustu.

Fasteignaframlag Jöfnunarsjóðs var tekið upp um leið og nýtt fasteignamat tók gildi árið 2002. Með tilkomu fasteignamatsins lækkaði skattstofn fasteigna um allt land nema á höfuðborgarsvæðinu. Framlagið er því í raun byggðaaðgerð sem bætir sveitarfélögum tapið sem þau urðu fyrir við breytingu á skattstofni.

Vegna þess hvernig framlagið er reiknað, lækka þessar greiðslur til sveitarfélaga ef tekin er ákvörðun um að lækka álagningu fasteignaskatts. Þannig verða sveitarfélögin af hluta þeirra tekna sem ætlað er að jafna stöðu þeirra við það að lækka fasteignaskatta.

Nær öll sveitarfélög landsins fá fasteignaframlag úr Jöfnunarsjóði. Einu undantekningarnar eru fimm sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu auk nokkurra fámennra hreppa. Í þeirra tilviki hafa lægri fasteignaskattar engin áhrif á aðra tekjustofna.

54 sveitarfélög um allt land reiða sig á fasteignaframlag úr Jöfnunarsjóði. Í Múlaþingi er fasteignaframlagið liðlega 250 milljónir króna á ári, eða um 50 þúsund krónur á hvern íbúa.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, segir þetta kerfi setja sveitarfélög í mjög erfiða stöðu. „Það er eðlilegt að fólk vænti þess að sveitarfélagið mæti þessum hækkunum. Fasteignagjöldin eru því marki brennd að þau fljúga upp alveg burtséð frá því hvaða tekjur fólk hefur til að standa undir þeim. En staðan er einfaldlega þannig, til dæmis hjá okkur í Múlaþingi, að ef við fullnýtum ekki skattheimildir á fasteignir þá skerðast framlög úr Jöfnunarsjóði.“

Undanfarin ár hafa sveitarfélög reynt að mæta þessum hækkunum með lækkun annarra gjalda.

Þannig hafa mörg þeirra ráðist í að lækka vatnsgjald eða fráveitugjöld fremur en að snerta fasteignaskattinn.

Björn segir þetta skapa ákveðna skekkju.

„Við reynum auðvitað að mæta þessu gagnvart íbúunum en það er bara mjög sérstakt að þetta skuli vera svona. Að sveitarfélögin geti ekki mætt þessu án þess að verða af öðrum tekjum um leið.“

Þetta er eitthvað sem verður að taka fyrir og ræða á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga að mati Björns. „Þetta hefur verið þekkt vandamál lengi og birtist okkur í þessari skýru mynd þegar fasteignamatið hækkar um tugi prósenta.

Jöfnunarsjóður gegnir því hlutverki að jafna stöðu sveitarfélaga. Hann á ekki að hafa af þeim tækifæri til að lækka álögur. Það getur ekki hafa átt að vera hugsunin,“ segir Björn.