Veiga Grétarsdóttir, kajakræðari og umhverfissinni, undirbýr að gera gott betur en að róa á kajak sínum umhverfis Ísland, en hún undirbýr nú að kljúfa öldurnar eftir endilangri sjávarsíðu Noregs, úr norðri til suðurs.

Ferðina ætlar hún að nota til að vekja athygli á umgengi mannsins við sjávarsíðuna, en mikil plastmengun blasir víða við á ströndum Noregs, rétt eins og Íslands.

Veiga lýsti þessum áformum sínum í viðtalsþættinum Mannamáli á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld, en hún stefnir að því að halda utan í apríl á þessu ári og hefja róðurinn í maí á nyrstu ströndum Noregs.

Að sögn ræðarans mun leiðangurinn taka sinn tíma, líklega þrjá til fjóra mánuði, allt eftir vindum og veðrum meðfram vogskorinni og skerjóttri strönd Noregs. Á endanum ætlar hún að sveigja bátnum fyrir suðurströndina og róa að lokum inn Oslóarfjörðinn.

Alls er leiðin um þrjú þúsund kílómetrar, en til samanburðar var hringferðin um Ísland, sem Veiga réri sumarið 2019, um 2.100 kílómetrar.

Aðspurð hvort svona sigling á litlum kajak geti ekki verið hættuleg, svarar Veiga af hógværð: „Það má vel vera að þetta verði hættulegt.“