Fjöldi björgunarsveitarmanna leita nú að göngumanni við Móskarðshnjúka en björgunarsveitir í Reykjavík voru kallaðar út skömmu fyrir klukkan 17 þar sem göngumaðurinn, sem var einn á ferð, hafði villst af leið.

Samkvæmt tilkynningu um málið er staðsetning mannsins á reiki þar sem kolniðamyrkur á svæðinu en manninum hefur ekki tekist að staðsetja sig. Björgunarsveitarmenn sækja nú að úr nokkrum áttum.

Þá voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út um klukkan 14 í dag þar sem tilkynnt var um veiðimann í sjálfheldu við Skaftá nálægt Kistufelli. Maðurinn hafði verið á veiðum ásamt öðrum manni en komst í sjálfheldu í brattlendi vegna hálku.

Björgunarsveitarmenn fundu manninn og hjálpuðu honum niður en skömmu síðar barst tilkynningin um villta göngumanninn við Móskarðshnjúka.

Uppfært:

Maðurinn sem leitað var að við Móskarðshnjúka er nú fundinn.